Afkoma Arion banka af áframhaldandi starfsemi var 4.958 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi og 3.676 milljónir króna af áframhaldandi starfsemi á fyrstu sex mánuðum ársins. Afkoman nam 4.913 milljónum króna fyrir fjórðunginn og 2.742 milljónum króna fyrstu sex mánuði ársins. Arðsemi eiginfjár var 10,5 prósent fyrir fjórðunginn og 2,9 prósent fyrir fyrstu sex mánuði ársins.

Þettta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri bankans. Heildareignir námu 1.182 milljörðum króna í lok júní 2020, samanborið við 1.082 milljarða króna í árslok 2019. Lausafé bankans jókst þar sem ekki varð af fyrirhugaðri 10 milljarða króna arðgreiðslu, bankinn gaf út skuldabréf undir viðbótar eiginfjárþætti 1 í febrúar og innlán jukust. Lán til viðskiptavina hækkuðu lítillega frá áramótum, aðallega húsnæðislán. Innlán jukust um 12,8 prósent frá áramótum. Heildar eigið fé í lok júní nam 189 milljörðum króna, samanborið við 190 milljarða króna í árslok 2019.

Eiginfjárhlutfall bankans (CAR hlutfall) var 28,1 prósent í lok júní 2020 en var 24,0 prósent í árslok 2019. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 nam 22,9 prósentum í lok júní 2020, samanborið við 21,2 prósent í árslok 2019. Eiginfjárgrunnur samstæðunnar jókst um 28,1 milljarð króna frá áramótum, einkum vegna útgáfu á 100 milljóna dollara skuldabréfs undir viðbótar eiginfjárþætti 1 í febrúar 2020 og vegna ákvörðunar stjórnar Arion banka um að leggja til að ekki verði af fyrirhugaðri arðgreiðslu vegna ársins 2019 í ljósi Covid-19 heimsfaraldursins.

Góð afkoma og sterk eiginfjárstaða

„Afkoma Arion banka á öðrum ársfjórðungi er góð og við náum markmiði okkar um 10 prósenta arðsemi," segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka. Góð afkoma sé sérstaklega ánægjuleg í ljósi þess að eiginfjárstaða bankans er afar sterk og langt umfram kröfur eftirlitsaðila.

„Regluleg starfsemi bankans þróast með jákvæðum hætti á fjórðungnum en óvenjulega háar fjármunatekjur, bæði af hluta- og skuldabréfum, hafa mjög jákvæð áhrif á afkomuna. Það er því áfram forgangsatriði að bæta enn frekar okkar reglulegu starfsemi.“

Þrátt fyrir gott uppgjör segir Benedikt mikilvægt að taka fram að enn sé umtalsverð óvissa í starfsumhverfi bankans vegna Covis-19. Faraldurinn, þróun hans og áhrif á bæði innlent og alþjóðlegt efnahagslíf muni áfram setja mark sitt á starfsemina.

„Óvissan snýr fyrst og fremst að þróun eignasafns bankans. Verulega dró úr niðurfærslum útlána á öðrum ársfjórðungi frá þeim fyrsta en við verðum að hafa í huga að skapast getur þörf á frekari niðurfærslum á meðan við göngum í gegnum núverandi efnahagsörðugleika. Fjárhagslegur styrkur Arion banka hvað varðar eigið fé og lausafé er hins vegar það mikill að bankinn er í góðri stöðu til að takast á við þær aðstæður sem eru uppi,“ segir Benedikt.

Þá segir Benedikt að á ársfjórðungnum hafi verið umtalsverð eftirspurn eftir íbúðalánum, bæði nýjum lánum og í tengslum við endurfjármögnun.

„Gera má ráð fyrir því að lægra vaxtastig hafi hér áhrif en bankinn lánaði 17 milljarða í ný íbúðalán á öðrum ársfjórðungi. Jafnframt fara stuðningslán til fyrirtækja, sem eru hluti af úrræðum stjórnvalda og hafa ríkisábyrgð að hluta eða öllu leyti, vel af stað og gengur vel að afgreiða þau lán til viðskiptavina.“