Grunnrekstur Arion banka er á mikilli siglingu og var lítillega sterkari á þriðja ársfjórðungi en greinandi Jakobsson Capital reiknaði með. Þetta kemur fram í verðmatsgreiningu á Arion banka en verðmatið hljóðar upp á 102 krónur á hlut sem er rétt tæplega 16 prósentum yfir núverandi markaðsgengi.

Afkoma af áframhaldandi starfsemi bankans, það er grunnrekstri, var 4.961 milljón króna og jókst um 31 prósent milli ára. Spár greinenda höfðu gert ráð fyrir, að meðaltali, að afkoma bankans af grunnrekstri yrði 3.218 milljónir.

Greinandi Jakobsson Capital bendir á að Arion banki glími við gnægð af fjármagni. Eiginfjárhlutfall Arion reiknað á áhættugrunni er 27,6 prósent en krafa Seðlabankans er að eiginfjárhlutfallið sé 18,4 prósent.

„Tæknilega þýðir það að bankinn er með 65 milljarða króna í umfram eigið fé. Væntanlega væri það þó ekki skynsamleg ráðstöfum að greiða allt umfram eigið fé út en bankinn ætti að geta hæglega greitt hluthöfum 41 milljarð króna,“ skrifar greinandinn.

Ef það væri gert þá hækkar vænt arðsemi eigin fjár Arion banka úr 8,7 prósentum í 13,2 prósent á spátíma og verð bankans verður vel umfram bókfært virði bankans samkvæmt verðmati eða um 1,16.