Ari­on banki hafnaði til­lögu eig­enda Bílanausts um skulda­upp­gjör í gær og hefur ákveðið að ganga að veðum sínum. 

Þetta er haft eftir Eggerti Árna Gíslasyni, stjórnarformanni Bílanausts, í frétt mbl.is en verulegur samdráttur tekna og tap hafa einkennt rekstur varahlutakeðjunnar síðustu ár. Var reksturinn stöðvaður í morgun.

Sjá einnig: Vafi leikur á rekstrarhæfi Bílanausts

Eins og Fréttablaðið hefur áður greint frá áttu stjórnendur Bílanausts í viðræðum við Arion banka í vetur þar sem félagið uppfyllti ekki ákvæði lánasamninga. Kom fram í ársreikningi Bílanausts að óvissa ríkti um áframhaldandi rekstrarhæfi félagsins ef lánin yrðu ekki gjaldfelld eða ef ekki næðist samkomulag um endurfjármögnun þeirra.

„Þetta er bara þannig að það eru tveir aðilar við borðið sem ná ekki sam­an,“ seg­ir Eggert við mbl.is.

Sjá einnig: Um 40 missa vinnuna hjá Bílanausti

Í kringum 40 starfsmenn Bílanaust missa vinnuna vegna rekstrarstöðvunar hjá varahlutakeðjunni og þeir fá að öllum líkindum ekki greidd laun næstu mánaðamót.