Arion banki hefur ákveðið að fresta boðaðri arðgreiðslu til hluthafa að fjárhæð samtals tíu milljarðar króna um tvo mánuði.

Í tilkynningu frá Arion banka kemur fram að bankanum hafi borist skriflegar beiðnir frá hluthöfum, sem ráða yfir meira en þriðjungi hlutafjár, um frestun ákvörðunar á greiðslu arðs á aðalfundi en hann fer fram 17. mars næstkomandi. Eru beiðnirnar í takt við tilmæli Seðlabanka Íslands um að fjármálafyrirtæki endurskoði arðgreiðslutillögur í ljósi óvissu í efnahagsumhverfinu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Samkvæmt heimildum Markaðarins var það að frumkvæði bandaríska vogunarsjóðsins Taconic Capital, langsamlega stærsta hluthafa Arion banka með rúmlega 23,5 prósenta hlut, að ákveðið var að endurskoða arðgreiðsluáform bankans.

Bankaráð Landsbankans greindi einnig frá því á föstudag að það myndi leggja til á aðalfundi bankans 27. mars að ákvörðun um greiðslu arðs vegna síðasta árs verði frestað til framhaldsaðalfundar sem haldinn verði innan tveggja mánaða frá aðalfundi. Bankaráðið hafði lagt til að greiddur yrði arður til hluthafa upp á samtals 9,45 milljarða króna í tveimur jöfnum greiðslum á þessu ári. Íslenska ríkið fer með rúmlega 98 prósent eignarhlut í bankanum.

Í forsíðufrétt Fréttablaðsins síðastliðinn fimmtudag kom fram að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri teldi að viðskiptabankarnir þrír ættu allir að endurskoða áform sín um útgreiðslu arðs í ljósi versnandi efnahagshorfa.

„Það má spyrja sig hvort það sé við hæfi að bankarnir greiði út arð eins og staðan er núna. [...] Þeir þurfa á þessum krónum að halda frekar en hluthafar,“ sagði Ásgeir í viðtali við Fréttablaðið.

Boðaðar arðgreiðslur bankanna, sem hluthafar áttu að greiða atkvæði um á aðalfundum þeirra síðar í þessum mánuði, nema samanlagt tæplega 24 milljörðum króna. Íslandsbanki, sem er að fullu í eigu ríkissjóðs, hyggst greiða 4,2 milljarða í arð en bankinn hefur ekki enn greint frá því hvort hann ætli að verða við tilmælum seðlabankastjóra um að fresta þeirra arðgreiðslu.

Hlutabréfaverð Arion banka, sem er skráður á markað á Íslandi og í Svíþjóð og er í einkaeigu, hefur lækkaði um nærri fjórðung frá áramótum. Markaðsvirði bankans er í dag um 116 milljarðar króna.