Útlán Arion banka til hótela nema tæplega 38 milljörðum króna eða um 10,7 prósentum af fyrirtækjalánasafni bankans, eftir því sem fram kom í kynningu Benedikts Gíslasonar bankastjóra á aðalfundi bankans í síðustu viku.

Til samanburðar námu heildarlánveitingar Arion banka til ferðaþjónustunnar 62 milljörðum króna við síðustu áramót og má því ætla að hlutfall lána til hótela sé liðlega sextíu prósent af lánum bankans í atvinnugreinina. Lánin nema um 4,9 prósentum sem hlutfall af heildarlánasafni bankans.

Í kynningu Benedikts kom jafnframt fram að Arion banki hafi aðallega lánað til hótela í Reykjavík og á suðurhluta landsins þar sem ferðaþjónustan muni líklega verða fyrir minni áhrifum af fækkun ferðamanna en annars staðar á landinu.

Eins og greint var frá í Markaðinum í síðustu viku hefur Arion banki lánað hvað minnst af stóru viðskiptabönkunum þremur til ferðaþjónustu, miðað við stöðuna í lok síðasta árs, eða um 62 milljarða sem jafngildir um 7,8 prósentum af lánasafni bankans. Útlánin jukust um tólf milljarða króna í fyrra.

Til samanburðar hafði Landsbankinn lánað 96 milljarða króna til ferðaþjónustu í lok síðasta árs og Íslandsbanki 90 milljarða króna. Eru það um átta til tíu prósent af lánasöfnum bankanna.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að bankarnir muni á næstu vikum vinna með fyrirtækjum í gistiþjónustu vegna tímabundins tekjutaps vegna kórónaveirunnar.

Í svari Arion banka við fyrirspurn Morgunblaðsins var til að mynda tekið fram að viðbrögð bankans við greiðsluerfiðleikum hótela yrðu fyrst og fremst fólgin í samblandi af því að skilmálum á fyrirliggjandi fyrirgreiðslu yrði breytt og að fyrirtækjum yrði veitt aukin fyrirgreiðsla í formi lausafjáraðstoðar. Hvert tilvik þyrfti að meta sérstaklega.