Verð hlutabréfa Arion banka hækkaði um 2,6 prósent í fyrstu viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Verðhækkunin kemur í kjölfar tilkynningar á skipulagsbreytingum sem ætlað er að draga verulega úr kostnaði.

Stjórn Arion banka samþykkti á fundi sínum í morgun nýtt skipulag bankans. Það felur í sér að starfsfólki bankans mun fækka um eitt hundrað eða um tólf prósent.

Skipulagsbreytingarnar eru liður í vegferð bankans að settum markmiðum um 50 prósenta kostnaðarhlutfall og arðsemi eiginfjár umfram 10 prósent.

Kostnaður vegna starfsloka verður gjaldfærður að fullu á þriðja ársfjórðungi og nemur hann tæpum 900 milljónum króna. Eftir skatta nema áhrif aðgerðanna um 650 milljónum króna á afkomu þriðja ársfjórðungs.

Áætlað er að breytingarnar muni að öðru óbreyttu hafa jákvæð áhrif á afkomu bankans sem nemur um 1,3 milljörðum króna á ársgrundvelli, að teknu tilliti til skatta. Jákvæðra áhrifa mun fyrst gæta í afkomu fjórða ársfjórðungs 2019.