Arion banki gaf í dag út skuldabréf eiginfjárþáttar 2 að fjárhæð 500 milljónir sænskra króna. Skuldabréfin eru gefin út til 10 ára með innköllunarheimild af hálfu útgefanda eftir 5 ár. 

Skuldabréfin, sem eru fyrsta víkjandi útgáfa Arion banka, eru með fljótandi vexti 310 punkta ofan á millibankavexti í sænskum krónum. Skuldabréfin teljast til eiginfjárþáttar 2 samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. 

Í tilkynningu um útgáfu skuldabréfanna er hún sögð styrkja eiginfjárgrunn Arion banka og vera áfangi í vegferð bankans að ná fram hagkvæmri skipan eiginfjár. 

Gert er ráð fyrir að útgáfan fái lánshæfiseinkunnina BBB- frá S&P Global Ratings. Skuldabréfin verða gefin út undir EMTN útgáfuramma bankans og er stefnt að töku skuldabréfanna til viðskipta í kauphöllinni í Lúxemborg þann 22 nóvember 2018.