„Segja má að árið 2019 hafi verið ár sparifjáreigandans,“ segir Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, dótturfélags Íslandsbanka. „Sparnaður sparifjáreigenda liggur auðvitað víða, hjá lífeyrisjóðum, í verðbréfasjóðum og í einstaka hlutabréfum og skuldabréfum. Ávöxtun var nær alls staðar góð og það hafa því margir notið góðs af,“ segir hann.

„Annað sem var gleðilegt á árinu 2019 er að fjárfestar fengu í fyrsta sinn í þrjú ár vel greitt fyrir að hafa fest kaup á hlutabréfum. Hlutabréfamarkaðurinn hafði árin á undan gefið lítið af sér. Skuldabréfaeigendur nutu hins vegar enn eina ferðina góðrar ávöxtunar í fyrra samhliða því að taka litla áhættu,“ segir Kjartan Smári og nefnir að það sé eðlilegt að hlutabréf gefi betri ávöxtun en skuldabréf til lengri tíma litið.

„Marel hækkaði um 68 prósent á árinu og dró vagninn í hækkunum í Kauphöllinni,“ segir Kjartan Smári.

Tveir sjóðir sköruðu fram úr

Kjartan Smári segir að tveir sjóðir í rekstri Íslandssjóða, hlutabréfasjóður og skuldabréfasjóður, hafi skilað bestu ávöxtun af öllum sambærilegum sjóðum hér á landi. Nafnávöxtun sjóðs sem fjárfestir í óverðtryggðum ríkisskuldabréfum hafi verið 13,2 prósent. „Á sama tíma voru vextir á bankabókum um og undir þremur prósentum. Sá sjóður hefur skilað bestu ávöxtun í sínum flokki fimm ár í röð og er stærsti sjóður sinnar tegundar á landinu. Við höfum verið stærst á landinu í rekstri skuldabréfasjóða undanfarinn áratug.

„Við höfum verið stærst á landinu í rekstri skuldabréfasjóða undanfarinn áratug.“

Aðeins einn íslenskur hlutabréfasjóður skilaði yfir 20 prósent raunávöxtun á árinu. Það var sjóðurinn IS EQUUS sem er í virkri stýringu hjá Íslandssjóðum. Nafnávöxtun hans var 24,3 prósent. Markmiðið er að ávöxtun sjóðsins sé hærri en sem nemur hækkun Úrvalsvísitölunnar og það markmið náðist,“ segir hann.

Íslandssjóðir eru dótturfélag Íslandsbanka.
Fréttablaðið/Eyþór

Ávöxtun skuldabréfa verður lægri í ár en í fyrra

Kjartan Smári segir að í ljósi lægri stýrivaxta verði ávöxtun skuldabréfaeigenda lægri í ár en í fyrra nema þeir auki áhættu í eignasafni sínu og kaupi til dæmis hlutabréf í meira mæli. „Það er ólíklegt að skuldabréf gefi enn eitt árið svo vel af sér, einfaldlega vegna þess að ólíklegt er að stýrivextir lækki mikið meira. Þar af leiðandi verður ekki sami gengishagnaður af skuldabréfum. Leiða má að því líkur að ávöxtun skuldabréfa verði kannski ekki langt frá ávöxtunarkröfu þeirra nú í ársbyrjun.“

„Þeir sem gáfust upp og seldu á einhverjum tímapunkti misstu mögulega af bróðurparti hækkana ársins.“

Íslandssjóðir reka einnig hlutabréfasjóð sem fylgir Úrvalsvísitölunni. Ávöxtun hans var rúm 20 prósent í fyrra. „Marel hækkaði um 68 prósent á árinu og dró vagninn í hækkunum í Kauphöllinni. Það er afar ánægjulegt að bæði skuldabréfa- og hlutabréfasjóðum í virkri stýringu og vísitölusjóðum vegnaði vel á árinu. Það er til marks um vel heppnaða eignastýringu,“ segir hann og bætir við að Íslandssjóðir fylgja aðferðum ábyrgra fjárfestinga í allri eignastýringu og leggja sérstaka áherslu á loftslagsmál í fjárfestingarákvörðunum sínum.

Ávöxtun á hlutabréfamarkaði var rykkjótt í fyrra

Að sögn Kjartans var ávöxtun á hlutabréfamarkaði nokkuð rykkjótt í fyrra. „Það voru sveiflur og því kom ávöxtunin ekki jafnt og þétt yfir árið. Það er erfitt að tímasetja hækkanir á íslenska markaðnum. Þeir sem gáfust upp og seldu á einhverjum tímapunkti misstu mögulega af bróðurparti hækkana ársins. Það varpar enn fremur ljósi á að horfa þarf á fjárfestingar í hlutabréfum til lengri tíma en ekki rýna of mikið í sveiflur frá degi til dags,“ segir hann.