Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, hyggst bjóða sig fram á ný sem formann Viðskiptaráðs. Þetta staðfestir hann í samtali við Markaðinn. Aðalfundur Viðskiptaráðs mun fara fram þann 10. febrúar næstkomandi.

„Ég hyggst bjóða mig fram á ný sem formaður en ég hef setið nú í 2 ár en reglur ráðsins kveða á um að formaður megi starfa í 4 ár,“ segir Ari og bætir við að síðastliðin tvö ár hafi verið mjög lærdómsrík.

„Það hefur verið mjög áhugavert að starfa á vettvangi Viðskiptaráðs undanfarin ár, bæði að kynnast því flotta starfsfólki sem þar vinnur og síðast en ekki síst kynnast betur þeim fyrirtækjum sem þar eiga aðild. Síðustu tvö ár hafa verið vægast sagt óvenjuleg, en það horfir til bjartari tíma hjá íslensku viðskiptalífi og vil ég leggja mitt af mörkum að styðja við þá vegferð næstu tvö árin. “