Einu rótgrónasta veitingahúsi miðborgarinnar, Argentínu, hefur verið lokað og hluti starfsliðsins hefur ekki fengið greidd laun fyrir marsmánuð. Þá hafa ekki verið greidd iðgjöld af launum starfsfólks frá því í maí í fyrra. Tuttugu úr starfshópnum hafa leitað réttinda sinna hjá stéttarfélaginu Eflingu. 

Segja ónýtar hitalagnir ástæðu lokunarinnar 

Veitingastaðurinn birti færslu á Facebook-síðu sinni þann 5. apríl síðastliðinn þar sem tilkynnt var um sprungna hitavatnslögn. „Okkur þykir leitt að tilkynna að við neyðumst til að hafa lokað hjá okkur um einhvern tíma.“

Viku síðar er staðurinn enn lokaður og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins á að skipta um kennitölu á fyrirtækinu. Þetta staðfestir Harpa Ólafsdóttir, sviðstjóri kjaramála hjá Eflingu, í samtali við Fréttablaðið og segir 20 starfsmenn Argentínu hafa leitað réttar síns hjá stéttarfélaginu nýlega.

 „Hingað leituðu starfsmenn sem grunur var á að þeir væru að hætta með kennitöluna sem þeir eru með núna og það reyndist vera rétt.“ 

Ný kennitala á leiðinni

Að sögn Hörpu hefur ekki allt starfsfólk veitingastaðarins leitað réttar síns, en samkvæmt heimildum blaðsins hefur í það minnsta einn starfsmaður flutt úr landi og á þar af leiðandi erfiðara með að sækja réttindi sín. Heimildir herma að nokkrum hafi verið sagt upp störfum, og að aðrir hafi sjálfir sagt störfum sínum lausum.

Samkvæmt upplýsingum frá Eflingu hefur fyrirtækið ekki skilað iðgjöldum frá því í maí í fyrra, eða tveimur mánuðum eftir að fyrirtækið Bos ehf tók við rekstrinum.

„Þau sögðu upp af því það voru vanhöld á því að greiða laun. Það er greinilegt að þarna er ný kennitala að taka við,“ segir Harpa. Þá skuldar fyrirtækið stórum hópi starfsliðsins laun fyrir uppsagnarfrest.

Fréttablaðið greindi frá því í byrjun október síðasta árs að Björn Ingi Hrafnsson væri orðinn eigandi Argentínu steikhúss. Argentína var í mars á síðasta ári fært yfir á kennitölu félagsins Bos ehf. sem stofnað var 1. mars, en Björn Ingi er skráður stjórnarmaður fyrirtækisins.

Steikhúsið Argentína var áður í eigu félagsins Potts ehf. sem Kristján Þór Sigfússon átti, en hann hafði verið annar eigenda Argentínu nánast frá upphafi, eða frá árinu 1990. Félagið Pottur var svo úrskurðað gjaldþrota í mars en taprekstur hafði verið á Argentínu undanfarin ár og skuldabyrðin þung. Lýstar kröfur í í gjaldþrot Potts námu 86 milljónum króna, og fengust engar greiðslur upp í kröfurnar. 

„Mikið um loforð og ekkert gert“

Arsen Aleksandersson hóf fyrst störf hjá Argentínu árið 2009 sem nemi. Nokkrum árum síðar lá leið hans annað en árið 2016 tók hann við stöðu yfirkokks á veitingastaðnum. Hann staðfestir í samtali við Fréttablaðið að veitingastaðurinn væri lokaður og starfsfólk hefði annað hvort sagt upp eða verið sagt upp. Sjálfum var honum sagt upp í desember á síðasta ári. Hann segir ástandið á veitingastaðnum hafa verið slæmt og hann hafi verið rekinn fyrir að hafa ítrekað bent á að brotið væri á sér. Voru honum þá bornar þær sakir að hann væri að reyna að stjórna veitingastaðnum. 

„Mitt persónulega álit er að þeir vita ekkert hvað þeir eiga að gera með þennan stað,“ segir Arsen um hvernig ástandið hefur verið á veitingastaðnum síðustu misseri, eða frá því nýir eigendur tóku við staðnum. „Það er mikið um loforð, en ekkert er gert. Þeir hugsa ekki um staðinn af ást eða halda uppi stöðlum eins og Kristján,“ segir Arsen og vísar í fyrrum eiganda Argentínu.

Eiginkona Arsens, Karina, starfaði á steikhúsinu í nokkra mánuði en var síðar sagt upp. Ástæðan, að sögn Arsens, er sú að hún er eiginkona hans. Veitingahúsið skuldar henni, að sögn Arsens, mánaðar uppsagnarfrest og orlof. Þau hjón leituðu réttar síns hjá stéttarfélaginu Eflingu en eru nú flutt til Noregs sem flækir stöðu þeirra.

Vildi greiða 6 milljónir í steikum 

Fréttablaðið hefur ítrekað reynt að ná tali á Birni Inga Hrafnssyni án árangurs. Fréttablaðið greindi frá því fyrr á þessu ári að Árni Harðarsson, einn af forsvarsmönnum Dalsins ehf., hafi sagt Björn Inga ítrekað haft í hótunum við sig og aðra eigendur Dalsins með það að markmiði að komast hjá skoðun opinberra aðila á bókhaldi Pressunnar og tengdra miðla. Í yfirlýsingunni segir meðal annars að það hafi Björn Ingi hafi boðist til þess að borga skuld til Dalsins með steikum á Argentínu, en upphæðin nam 6 milljónum króna. 

Sem fyrr segir heldur Bos ehf. utan um rekstur Argentínu, en félagið var stofnað af KPMG undir nafninu AB596 ehf. Nokkrum dögum eftir stofnun þess tók hæstaréttarlögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson við félaginu og breytti nafninu í Bos.

Sigurður er skráður stjórnarmaður og prókúruhafi þess og dóttir hans, Edda Sif Sig­urðar­dóttir, var ráðin framkvæmdastjóri  Argentínu samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár. Sigurður hefur hins vegar neitað að hafa aðkomu að félaginu í dag.