Ríkisstjórn Argentínu kom á gjaldeyrishöftum í gær til að koma í veg fyrir fjármagnsflótta og enn frekari veikingu gengis argentíska pesóans. Gengi gjaldmiðilsins hefur fallið um meira en fjórðung frá því að kosningar fóru þar fram í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Seðlabanki landsins hefur sett á skilaskyldu á tekjur sem rekja má til sölu erlendis og öll fyrirtæki munu þurfa að óska eftir leyfi til að selja pesóa fyrir erlendan gjaldeyri. Einstaklingar geta keypt allt að tíu þúsund dollara, jafnvirði 1,3 milljóna króna, á mánuði án heimildar.

Á miðvikudag bað Argentína um að seinka greiðslum á afborgunum af 101 milljarða dollara lánum. Matsfyrirtækið Standard & Poor‘s flokkaði það til skamms tíma sem vanskil.

Skömmu eftir að Maurico Macri tók við sem forseti í desember 2015, afnam hann gjaldeyrishöft sem höfðu verið til staðar frá árinu 2011.

Eignaverð á fjármálamörkuðum hefur farið lækkandi að undanförnu en óttast er að pópulistar muni taka völdin í landinu. Gjaldeyrishöftin eiga að stemma stigu við hvaða áhrif slíkar lækkanir hafi á raunhagkerfið.