Arion banki hefur hækkað markmið sitt um arðsemi eiginfjár úr tíu prósentum í 13 prósent, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Arðsemi Arion banka var um 17 prósent á þriðja ársfjórðungi og 16 prósent á öðrum ársfjórðungi.

Bankinn miðar einnig við að vöxtur tryggingaiðgjalda verði meira en þremur prósentustigum hærri en vöxtur innlends tryggingamarkaðar.

Arion banki stefnir sömuleiðis að því að rekstrartekjur sem hlutfall af áhættuvegnum eignum verði 7,3 prósent en markmiðið var áður 6,7 prósent.

Orðalagi um markmiðið í lánavexti hefur einnig verið breytt í að hann verði í takt við hagvöxt (nafnvöxt). Áður var markmiði: „Lánavöxtur sé í takt við vöxt í efnahagslífinu á næstu árum. Áætlað er að íbúðarlánavöxtur verði meiri en vöxtur fyrirtækjalána.“