Arðsemi eigin fjár Íslandsbanka var allt að fjórum prósentustigum undir þeirri kröfu sem Bankasýsla ríkisins gerir til bankans á síðasta ári. Bankinn segist vera að bregðast við stöðunni með tiltækum ráðum og stefnir að því að ná markmiðum sínum á næstu tveimur til fjórum árum.

Arðsemi eigin fjár Íslandsbanka nam 5,1 prósenti á fyrstu níu mánuðum síðasta árs og var því umtalsvert undir þeirri lágmarks ávöxtunarkröfu sem Bankasýsla ríkisins, sem fer með eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka og Landsbankanum, setti bankanum í árslok 2018 en krafan var á síðasta ári á bilinu 7,75 til 9,25 prósent.

Bankinn náði heldur ekki arðsemiskröfu Bankasýslunnar þegar litið er til arðsemi eigin fjár hans án bankaskatts og einskiptiskostnaðar en þannig reiknuð nam arðsemin 7,3 prósentum á tímabilinu.

Arðsemi eigin fjár Landsbankans var nær kröfu Bankasýslunnar en stofnunin gerir sambærilegar kröfur til arðsemi bankanna tveggja. Landsbankinn skilaði arðsemi upp á 7,9 prósent á fyrstu níu mánuðum síðasta árs og minnkaði hún um tæplega eitt prósentustig á milli ára. Þess má geta að án bankaskatts nam arðsemi Landsbankans 9,6 prósentum á tímabilinu sem um ræðir en bankinn hefur sem kunnugt er sett sér markmið um að ná og viðhalda að minnsta kosti tíu prósenta arðsemi að bankaskattinum undanskildum.

Samkomulag tókst á milli Bankasýslunnar og Íslandsbanka um almenn og sérstök markmið í rekstri bankans í desember árið 2018 eftir ríflega tveggja ára viðræður en í nýlegri skýrslu um starfsemi stofnunarinnar er tekið fram að nokkur álitamál hafi komið upp í viðræðunum, þá meðal annars um arðsemiskröfu ríkisins, sem tíma hafi tekið að greiða úr. Auk þess hafi verið áhöld um upplýsingagjöf bankans til Bankasýslunnar og samkeppnissjónarmið.

Arðsemi eigin fjár Íslandsbanka var 5,1 prósent á fyrstu níu mánuðum 2019 og minnkaði um tvö prósentustig á milli ára. Arðsemi grunnrekstrar var um 7,3 prósent á tímabilinu.
Fréttablaðið/Eyþór

Í samningi Bankasýslunnar og Íslandsbanka, sem hefur verið birtur á vef stofnunarinnar, er kveðið svo á um að bankinn skuli grípa til „viðeigandi ráðstafana“, eins og það er orðað, ef arðsemi af áframhaldandi starfsemi á ársgrundvelli uppfyllir ekki arðsemismarkmið bankans í fjárhagsáætlun eða lágmarks ávöxtunarkröfu ríkisins á tveimur samliggjandi ársfjórðungum. Er ávöxtunarkrafan skilgreind sem áhættulausir vextir, það er, vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana í Seðlabanka Íslands, að viðbættu fimm prósenta álagi.

Umrædd arðsemiskrafa Bankasýslunnar er sambærileg og fjárfestar gera almennt til hérlendra banka, að sögn viðmælenda Markaðarins á fjármálamarkaði, en til þess að setja kröfuna í samhengi má sem dæmi nefna að Arion banki seldi í liðnum mánuði verðtryggð víkjandi skuldabréf, sem teljast til eiginfjárþáttar 2 og eru almennt séð ódýrara fjármagn en hlutafé, á kröfunni 3,95 prósent.

Íslandsbanki hefur að undanförnu staðið í miklum hagræðingaraðgerðum sem hafa meðal annars birst í uppsögnum en starfsmönnum bankans fækkaði um níutíu talsins á síðasta ári. Aðspurð um uppsagnirnar sagði Birna Einarsdóttir bankastjóri í samtali við Ríkisútvarpið í nóvember síðastliðnum að það væri „að sjálfsögðu markmiðið að ná arðsemi bankans upp á það stig að eigendur séu sáttir og það er mikilvægt að grípa til ýmissa aðgerða til að unnt sé að ná því“.

Í svari Íslandsbanka við fyrirspurn Fréttablaðsins er tekið fram að bankinn sé að „bregðast við þessu með tiltækum ráðum og stefnir á að komast í markmið sín á næstu tveimur til fjórum árum með því að sjá tekjur hækka meira en kostnað á því tímabili“.

Styttist í að söluferli hefjist

Eins og greint var frá í Markaðinum síðasta haust hefur enn ekkert verið ákveðið af hálfu stjórnvalda um hvenær eigi að hefja söluferli á hlut í öðrum hvorum ríkisbankanna. Haft var eftir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, í Ríkisútvarpinu í lok september að hann vænti þess að skriður kæmist fljótlega á málið. Unnið er að endurskoðun eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki frá árinu 2017 en áhersla hefur verið lögð á að ljúka þeirri vinnu áður en sala á bönkunum hefjist.

Fram kom í fyrrnefndri frétt Markaðarins að Bankasýslan horfi til þess að farin verði sú leið við næsta skref í söluferli bankanna að fjórðungshlutur verði að lágmarki seldur í Íslandsbanka með hlutafjárútboði og tvíhliða skráningu á markað eða allt að hundrað prósenta hlutur með uppboðsleið þar sem aðrir bankar og fjárfestingasjóðir myndu gera tilboð í bankann.

Niðurstöður starfshóps sem skilaði af sér hvítbók um fjármálakerfið í lok síðasta árs voru meðal annars þær að rök væru fyrir því að dregið yrði úr víðtæku eignarhaldi ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sem er margfalt meira en þekkist í öðrum Evrópuríkjum, til þess að minnka áhættu, fórnarkostnað og neikvæð samkeppnisáhrif.

Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslunnar, og Jón Gunnar Jónsson forstjóri.
Fréttablaðið/Anton Brink

Má ekki ráða ráðgjafa án aðkomu Bankasýslunnar

Samkvæmt samningi Bankasýslunnar og Íslandsbanka er bankanum meinað að ráða fjármálaráðgjafa eða lögfræðilega ráðgjafa í tengslum við sölu á bankanum eða meiriháttar sameiningar við önnur fjármálafyrirtæki nema að Bankasýslan sé höfð með í ráðum.

Þá er jafnframt áréttað í samningnum að vald til þess að taka ákvörðun um að hefja sölumeðferð á hlut ríkisins í Íslandsbanka liggi hjá Bankasýslunni og fjármála- og efnahagsráðherra en ekki hjá bankanum. Bankinn megi auk þess ekki hafa frumkvæði að skráningu hluta á skipulegum verðbréfamarkaði án samþykkis Bankasýslunnar.

Enn fremur er sú skylda lögð á bankann að tryggja nauðsynlega aðstoð og starfskrafta við sölumeðferð á hlut ríkisins sem og við undirbúning á slíkri sölu, til dæmis með þátttöku í áreiðanleikakönnunum, fundum með Bankasýslunni og kynningarfundum með væntanlegum fjárfestum.