Landsbankinn hagnaðist um 10,5 milljarða króna á árinu 2020. Hagnaður bankans dróst þannig saman um meira en 42 prósent frá árinu 2019 þegar hann var 18,2 milljarðar króna. Arðsemi eigin fjár bankans var 4,3 prósent á síðasta ári, samanborið við 7,5 prósent árið 2019. Þetta kemur fram í uppgjöri bankans fyrir síðasta ár sem var birt nú í dag.

Rekstrartekjur bankans á síðasta ári námu 38,3 milljörðum króna samanborið við 51,5 milljarða króna árið áður. Eigið fé Landsbankans í árslok 2020 var 258,3 milljarðar króna samanborið við 247,7 milljarða króna í árslok 2019. Enginn arður var greiddur út úr Landsbankanum á árinu 2020 vegna afkomu ársins 2019. Hins vegar hyggst bankaráð nú leggja til að arður upp á 4,5 milljarða verði greiddur til ríkissjóðs vegna afkomu ársins, eða sem nemur tæplega helmingi af hagnaði bankans.

Eigið fé Landsbankans í árslok 2020 var 258,3 milljarðar króna, sem er 11 milljörðum króna hærra en í árslok 2019. Heildareignir bankans námu 1.564 milljörðum króna í lok árs 2020 og hækkuðu um 10% á milli ára.