Bankasýsla ríkisins telur ljóst að bæta þurfi arðsemi Íslandsbanka á næstu misserum þannig að hún verði álitleg fyrir tilvonandi fjárfesta þegar ríkið selur hlut í bankanum. Ætla megi að arðsemi bankans við söluna þurfi að nema að lágmarki átta prósentum til þess að unnt verði að selja bankann á bókfærðu virði í ríkisreikningi. Til samanburðar var arðsemin 4,8 prósent í fyrra.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í sérstakri skýrslu Bankasýslunnar um fyrirhugað söluferli Íslandsbanka sem birt var í síðustu viku.

Eins og kunnugt er hefur stjórn Bankasýslunnar, sem fer með eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka og Landsbankanum, dregið til baka tillögu sína til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að selja að lágmarki fimmtungshlut í Íslandsbanka í samhliða söluferli. Ástæðan er sú mikla óvissa sem ríkir í efnahagsmálum vegna útbreiðslu kórónaveirunnar.

Í skýrslu Bankasýslunnar kemur fram það mat stofnunarinnar að ólíklegt sé að Íslandsbanki verði seldur á bókfærðu virði í ríkisreikningi – sem samsvarar 0,8 sinnum eigin fé bankans – miðað við núverandi arðsemi bankans og verðmat á hlutabréfum í evrópskum bönkum.

Stofnunin telur hins vegar að fyrirhuguð lækkun bankaskatts og iðgjalds í Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta auk lægri eiginfjárkrafna vegna útlána til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, samkvæmt Evrópureglugerð sem var innleidd í byrjun ársins, geti leitt til þess að arðsemi Íslandsbanka fari úr 4,8 prósentum í 6,2 prósent á næstu tveimur til þremur árum.

Skoði sölu eigna

Bankasýslan segist í skýrslunni leggja áherslu á að bankinn vinni áfram að því að auka arðsemi sína, til dæmis með því að lækka rekstrarkostnað, selja eignir sem binda of mikið eigið fé miðað við arðsemi og gefa út víkjandi skuldabréf sem tilheyra eiginfjárþætti 1, rétt eins og Arion banki gerði í síðasta mánuði.

Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, og Jón Gunnar Jónsson forstjóri.
Fréttablaðið/Anton Brink

Að mati Bankasýslunnar hafa bæði innlendir og erlendir fjárfestar nauðsynlegt bolmagn til þess að eignast hlut í Íslandsbanka ef farin verður sú leið – sem stofnunin kýs – að skrá hann á markað í kjölfar útboðs. Telur Bankasýslan sem dæmi ljóst að innlendir stofnanafjárfestar „myndu auðveldlega ráða við að eignast fimmtungshlut í bankanum án þess að breyta mikið fjárfestingarstefnu sinni“.

Þannig bendir stofnunin á að söluandvirði fimmtungshlutar í Íslandsbanka geti legið á bilinu 21,3 til 35,5 milljarðar króna sem myndi samsvara 2,5 til 4,2 prósentum af innlendu hlutabréfasafni hérlendra stofnanafjárfesta og 0,5 til 0,8 prósentum af innlendu eignasafni þeirra.

Ef allur eignarhlutur ríkisins í bankanum yrði seldur til slíkra fjárfesta gæti hann hins vegar numið á bilinu 12,6 til 21 prósenti af innlendum hlutabréfum þeirra og 1,7 til 2,9 prósentum af heildareignum, samkvæmt greiningu Bankasýslunnar.

Bankasýslan telur enn fremur að áhugi innlendra fjárfesta, hvort sem er fagfjárfesta eða almennra fagfjárfesta, á að eignast hlut í bankanum verði fyrir hendi ef hann verður seldur með útboði.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.

Annars vegar sé markaður fyrir skráð hlutabréf hér á landi lítill miðað við verga landsframleiðslu sem bendir til þess að vægi innlendra hlutabréfa í eignasafni fjárfesta sé of lítið. Hins vegar sé líklegt að innlendir fjárfestar vilji eignast hlutabréf í félagi sem væri á meðal þriggja stærstu í hérlendri kauphöll með tilheyrandi seljanleika.

Raski fjármálastöðugleika

Í skýrslu Bankasýslu ríkisins er samruni Íslandsbanka og Arion banka auk þess útilokaður, nema að komi til sérstakrar lagasetningar, og dregið í efa og að slíkur samruni myndi skila þjóðhagslegum ábata.

Að mati stofnunarinnar gætu töluverð samlegðaráhrif orðið af samruna bankanna í formi minni rekstrarkostnaðar en þannig telur hún mögulegt að spara um einn tíunda af rekstrarkostnaði sameiginlegs banka. Arðsemi af áframhaldandi starfsemi færi þá úr 6,1 prósenti í 7,2 prósent um leið og samlegðaráhrifin væru að fullu nýtt.

Á móti bendir Bankasýslan á að „afar líklegt“ sé að samkeppnisyfirvöld myndu hafna samrunanum, enda skapi hann „augljósa hættu“ á samkeppnishömlum, hann geti raskað fjármálastöðugleika og þá myndi hann taka „dýrmætan tíma frá stjórnendum bankanna á tímum mikilla breytinga“.

Samkvæmt greiningu Bankasýslunnar er hérlendur markaður fyrir innlán „mjög mikið samþjappaður“, markaðir fyrir önnur útlán og hlutabréf „nokkuð samþjappaðir“ en markaðir fyrir íbúðalán til einstaklinga og skuldabréf „ekki samþjappaðir“, ef tekið er mið af reglum bandarískra samkeppnisyfirvalda. Þar sem mikil skörun sé á milli þjónustuframboðs stóru viðskiptabankanna þriggja séu hérlend samkepnisyfirvöld „afar líkleg“ til þess að heimila ekki samruna þeirra á milli.

Hækkun aukans slegið á útlánavöxt

Bankasýsla ríkisins telur sterkar vísbendingar um að skarpar hækkanir á sveiflujöfnunaraukanum sem leggst ofan á eiginfjárkröfur bankanna á síðustu mánuðum hafi haft þau áhrif að draga úr útlánum bankanna og dregið þannig úr spennu í efnahagslífinu. Af þeim sökum hafi legið fyrir aðstæður sem styðji við lækkun eiginfjáraukans.

Til marks um að nýlegar hækkanir á sveiflujöfnunaraukanum hafi slegið á útlánavöxt er í skýrslu Bankasýslunnar annars vegar bent á að hlutfall skulda heimila og atvinnufyrirtækja miðað við verga landsframleiðslu hafi náð hámarki um mitt ár 2019 en svo tekið að lækka en hálfs prósentustigs hækkun á sveiflujöfnunaraukanum tók gildi um miðjan maímánuð.

Hins vegar hafi raunvöxtur útlána til heimila og atvinnufyrirtækja farið hríðlækkandi frá því mars 2019, eftir að hafa náð hámarki í nóvember árið áður, og hafi verið neikvæður í nóvember í fyrra.

Þess má geta að fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans aflétti í síðustu viku tveggja prósenta kröfu um sveiflujöfnunarauka vegna kórónaveirunnar. Er hann því núll prósent.