Hagnaður af rekstri Íslandsbanka eftir skatta nam 1,2 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 2,1 milljarð króna á sama fjórðungi í fyrra. Arðsemi eiginfjár var 2,8 prósent og lækkaði um 2,1 prósentustig á milli ára.

Vaxtatekjur drógust saman um 2,1 prósent á fjórðungnum sem skýrist af mestu leyti af 2 prósenta lækkun stýrivaxta Seðlabankans seint á fyrsta og örðum fjórðungi. Þóknanatekjur drógust saman um 16,4 prósent að stærstu leyti vegna minni kortaveltu.

Stjórnunarkostnaður lækkaði um 5,6 prósent sem er í fréttatilkynningu um uppgjörið sagt bera vott um að kostnaðarhagræðing síðastliðna ára sé farin að skila árangri.

Neikvæð virðisbreyting útlána á fjórðungnum nam 2,4 milljörðum króna sem skýrist að stærstu leyti af endurmati á mögulegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á útlán á stigi 2 til fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Útlán til viðskiptavina jukust um 9,5 milljarða, að mestu vegna útlána til einstaklinga. Innlán til viðskiptavina jukust um 33,4 milljarða, aðallega vegna aukningar í innánum frá lífeyrissjóðum og einstaklingum.

„Virðisrýrnun útlána, sem er einkum tilkomin vegna áhrifa af COVID-19 heimsfaraldrinum, hafði mikil áhrif á afkomu fjórðungsins sem og á afkomu fyrstu sex mánaða ársins, “ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka og bæti við að kostnaður hafi dregist saman um 7 prósent á milli ára. „Þar sáum við aðgerðir sem gripið var til á síðasta ári skila árangri.“