Hagnaður TM eftir skatta á síðasta ári var ríflega 5,3 milljarðar króna, en félagið sendi frá sér uppgjör fjórða fjórðungs og ársins í heild eftir lokun markaða í dag. Hagnaður eftir skatta á árinu 2019 var 2,2 milljarðar. Afkoma vátryggingastarfsemi var jákvæð um 1,16 milljarða króna, samanborið við 644 milljónir króna á árinu 2019. Afkoma fjárfestinga um það bil 4,5 milljarða króna hagnaður, samanborið við ríflega 1,23 milljarða 2019.

Afkoma fjárfestinga TM á fjórða fjórðungi var sú besta síðan félagið var skráð á markað 2013, að því er kemur fram í fjárfestakynningu vegna uppgjörsins. „Mjög góð ávöxtun af hlutabréfum og sjóðum sem hækkuðu um 19% og skiluðu rúmlega 70% af fjárfestingatekjum fjórðungsins,“ segir í kynningunni. Þar segir jafnframt að allir eignaflokkar hafi skilað góðri ávöxtun að frátöldum ríkisskuldabréfum.

Ávöxtun allra fjárfestingaeigna var 14,8 prósent á árinu 2020. Meðalávöxtun fjáreigna TM hefur verið 11,8 prósent frá skráningu árið 2013.

Iðgjöld TM lækkuðu um 380 milljónir króna. Kostnaður félagsins vegna tjóna lækkaði hins vegar töluvert meira eða um 806 milljónir. Þar af leiðandi batnaði framlegð vátrygginga um alls 651 milljón.

Samsett hlutfall TM var 94,9 prósent á síðasta ári, samanborið við 98,1 prósent 2019. Samsett hlutfall sýnir hlutfall iðgjalda og útgjalda vegna vátrygginga. Sé hlutfallið undir 100 prósentum er hagnaður af vátryggingarekstrinum.