Drög að uppgjöri Arion banka fyrir annan ársfjórðung 2020 liggja nú fyrir og samkvæmt þeim er afkoma fjórðungsins 4,9 milljarðar króna og reiknuð arðsemi á ársgrundvelli 10,5 prósent.

Þetta kemur fram í tilkynningu Arion banka til Kauphallarinnar. Afkoman er sögð umtalsvert umfram það sem spár greiningaraðila gera ráð fyrir. Jákvæð þróun markaða á tímabilinu er sögð setja mark sitt á uppgjörið en hreinar fjármunatekjur eru jákvæðar um 2,7 milljarða króna. Niðurfærslna útlána á tímabilinu nemur tæpum einum milljarði króna, sem er veruleg lækkun frá fyrsta fjórðungi og rekstraráhrif félaga til sölu eru óveruleg á fjórðungnum.

„Rétt er að taka fram að áfram er umtalsverð óvissa í starfsumhverfi bankans og þá fyrst og fremst tengd þróun COVID-19 faraldursins og þeim áhrifum sem faraldurinn kann að hafa á íslenskt efnahagslíf," segir í tilkynningunni.

„Sú óvissa snýr fyrst og fremst að þróun eignasafns bankans svo sem útlánasafns og verðbréfastöðu. Fjárhagslegur styrkur Arion banka er varðar eigið fé og lausafé er áfram mjög mikill sem auðveldar bankanum að takast á við óvenjulegar aðstæður.“

Uppgjörið fyrir annan ársfjórðung, sem verður birt 29. júlí, er enn í vinnslu og gætu því framangreindar upplýsingar tekið breytingum.