Fjárfestingasjóðurinn Ardian lýsir sig ósammála öllum helstu efnisþáttum Samkeppniseftirlitsins vegna sölunnar á Mílu. Þetta kemur fram í athugasemdum franska fyrirtækisins við frummatsskýrslunni, sem birt hafa verið á vef eftirlitsins.

Ardian mót­mælir því jafnframt harð­lega að ekki hafi verið út­listað í kaupsamningum hvernig sam­runinn myndi leiða til hag­ræðingar. Í athugasemdunum segir jafn­framt að fyrirtækið sé í grund­vallar­at­riðum ósam­mála þeirri mynd sem eftir­litið dregur upp af sam­keppnis­að­stæðum fyrir og eftir sam­runann.

Í októ­ber á síðasta ári var skrifað undir samning Ardian og Símins um kaup fyrr­nefnda fyrir­tækisins á Mílu. Sá samningur var háður sam­þykki Sam­keppnis­eftir­litsins.

Í síðustu viku upp­lýsti Ardian Símann um að ekkert yrði af við­skiptunum þar sem skil­yrði Sam­keppnis­eftir­litsins væru of í­þyngjandi. Þá væri það mat fyrir­tækisins að for­sendur kaup­samnings væru brostnar og því þyrfti að lækka kaup­verðið.

Í frummati Samkeppniseftirlitsins kemur fram að fyrirfram megi gera ráð fyrir því að slit á eignatengslum milli Símans og Mílu séu jákvæð í samkeppnislegu tilliti. Á hinn bóginn bendir eftirlitið á að með samningum Símans og Ardian sé litið fram hjá þeirri staðreynd að eignatengsl Símans og Mílu hafa allt frá árinu 2013 verið bundin ítarlegum skilyrðum sem vinni gegn skaðlegum áhrifum eignatengslanna. Á þeim grunni vill eftirlitið meina að samkeppni hafi þegar verið til staðar á þessum markaði.

Eftirlitið geldur varhug við því að með kaupunum yrði Síminn bundinn til langs tíma í viðskiptum við Mílu. Þannig yrðu keppinautar Mílu útilokaðir að verulegu leyti frá viðskiptum við stærsta veitanda fjarskiptaþjónustu á landinu.

Eftirlitið telur jafnframt að ákvæði samningsins um bindingu heildsöluverðs við vísitölu neysluverðs feli í sér þá hættu að Síminn, og þar með viðskiptavinir hans, verði af verðlækkunum vegna áframhaldandi tækniþróunar og samkeppnislegs aðhalds.

Í frétt á vef eftirlitsins segir að lyktir þessa máls muni ráðast af tvennu. Annars vegar því hvert endanlegt mat Samkeppniseftirlitsins á samkeppnislegum áhrifum sölunnar á Mílu verða, og hins vegar af vilja fyrirtækjanna til að gera breytingar á fyrirliggjandi samningum sem miða að því að tryggja hagsmuni neytenda og fyrirtækja af samkeppni í smásölu, heildsölu og innviðaþjónustu á fjarskiptamarkaði