Franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian er ekki tilbúið að klára kaupin á Mílu, dótturfyrirtæki Símans.

Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar, en þar segir að í október hafi verið undirritaður kaupsamningur um kaup og sölu 100% hlutafjár í Mílu, en í júlí á þessu ári hafi Ardian upplýst að félagið hefði óskað eftir sáttarviðræðum við Samkeppniseftirlitið. Ardian hafi þá skilað tillögum að skilyrðum til þess að mæta samkeppnislegum áhyggjum Samkeppniseftirlitsins.

Í gær upplýsti Ardian síðan Símann um að það væri mat sitt að tillögurnar sem félagið hefði lagt fyrir Samkeppniseftirlitið varðandi breytingar á fyrirhuguðum samningi væru íþyngjandi og þess eðlis að fela í sér neikvæð áhrif.

„Það væri mat Ardian að ef samruninn verði samþykktur af hálfu samkeppnisyfirvalda með fyrirliggjandi skilyrðum feli það í sér að eitt af skilyrðum þess að viðskiptin gangi í gegn samkvæmt kaupsamningnum teljist ekki uppfyllt.“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að Ardian hafi upplýst að félagið sé ekki reiðubúið til að ljúka viðskiptunum á grundvelli óbreytts kaupsamnings.

Auk þess kemur fram að nú sé ljóst að Síminn muni þurfa að ræða við Ardian um atriði sem varða kaupsamninginn.