Aranja hefur fjárfest í nýsköpunarfyrirtækinu Slate sem gerir þróun á vefþjónustu og gagnalagi aðgengilegri fyrir hugbúnaðarteymi. Fjárfestingin fylgir í kjölfar þess að Aranja hefur notast við lausnina síðastliðið ár í nýsköpun.
Stofnendur Slate, þeir Alexander Jósep Blöndal og Birkir Örn Karlsson, hafa unnið að þróun vörunnar síðastliðin þrjú ár.
Aranja er hugbúnaðarhús sem stofnað var árið 2014 af Eiríki Heiðari Nilssyni og Ægi Þorsteinssyni. Hjá Aranja starfa 19 sérfræðingar sem vinna að fjölbreyttum verkefnum fyrir viðskiptavini á borð við Facebook, Google, Sotheby’s og Bláa Lónið.
„Við hugbúnaðargerð fer oft stór og tímafrekur hluti í að smíða vefþjónustu og gagnagrunna. Með Slate geta hugbúnaðarteymi búið til, gefið út og fylgst með bakendaþjónustum sínum á auðveldan hátt í rauntíma samvinnu við aðra teymismeðlimi án þess að þurfa að sýsla með rekstrarumhverfi,“ segir Sævar Már Atlason, nýr framkvæmdastjóri Slate.
„Við hjá Aranja erum stöðugt að leita að nýjum og spennandi tækifærum. Við sjáum mikla möguleika í Slate sem er með ferska nálgun til að einfalda hugbúnaðarþróun sem oft reynist flókin og tímafrek. Með fjárfestingu okkar í Slate erum við stíga næstu skref í vegferð okkar sem fjárfestingarfyrirtæki (e. Venture Studio), þar sem við sameinum þekkingu okkar í stafrænum lausnum og nýsköpun.” segir Ægir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Aranja.