Apple hefur beðið stóra birgja að meta hvaða áhrif það hefði á kostnað að færa 15-30 prósent af framleiðslugetunni frá Kína til Suð-Austur Asíu. Tæknifyrirtækið vinnur að því að endurskipuleggja virðiskeðju sína. Þetta kemur fram í erlendum fjölmiðlum.

Endurskipulagninguna má rekja til tollastríðs á milli Bandaríkjanna og Kína en heimildir Nikkei Asian Review herma að jafnvel þótt löndin slíðri sverðin verði ekki aftur snúið. Apple hafi ákveðið að það sé of áhættusamt að treysta um of á verksmiðjur í Kína.

„Lægri fæðingartíðni, hærri launakostnaður og hættan sem skapast að treysta um of á miðstýrða framleiðslu í einu land.“

„Lægri fæðingartíðni, hærri launakostnaður og hættan sem skapast að treysta um of á miðstýrða framleiðslu í einu landi. Þessir áhættuþættir eru ekki að fara,“ segir stjórnandi sem þekkir vel til mála. Apple myndi feta í fótspor fleiri fyrirtækja sem vilja dreifa framleiðslunni víðar til að auka sveigjanleika.

Apple hefur framleitt í Kína þá tvo áratugi sem fyrirtækið hefur náð miklum árangri á heimsvísu. Þar í landi hefur þó ekki verið hægt að kalla til hundruð þúsunda af fagfólki með litlum fyrirvara samhliða vaxandi umsvifum.

Það hefur byggst upp víðfeðmt og flókið vistkerfi í kringum verksmiðjur Apple í Kína. Þar er að finna fyrirtæki sem framleiða íhluti, sinna vörustjórnun og þjálfað starfsfólk, segir í frétt Financial Times.

Um fimm milljónir Kínverja hafa atvinnu af því að þjónusta Apple í Kína. Apple er með tíu þúsund starfsmenn í Kína.

Birgjar segja að það muni taka tíma að byggja upp starfsemi í öðrum löndum og líklegt sé að Kína verði mikilvægasta framleiðsluland Kína um fyrirsjáanlega framtíð.

„Þetta er langtíma verkefni og mögulega munum við sjá einhvern árangur eftir tvö eða þrjú ár,“ sagði einn birgir. „Þetta er erfitt en við verðum að takast við verkefnið.“