Stjórnendur tæknirisans Apple tóku sig til í gær og kynntu fjóra nýja iPhone-síma á rafrænum viðburði.

Er um að ræða flaggskipin iPhone 12, iPhone 12 Mini, iPhone 12 Pro og iPhone 12 Pro Max. Allir eiga símarnir það sameiginlegt skarta nýrri hönnun, öflugri örgjörva og styðja 5G, fimmtu kynslóð farsímakerfa.

Bakhliðin á bláa iPhone 12.

Stílhreinar glerhliðar og flatir álkantar einkenna nýju hönnunina sem minnir marga á útlit iPhone 4 frá árinu 2010. Þá eru skjáir símanna nú húðaðir með því Apple kýs að kalla „keramikskildi.“ Á sú meðferð sögð draga úr hættunni á því að skjárinn brotni þegar eigandinn missi símann.

iPhone 12 er búinn 6,1 tommu OLED skjá og verður fáanlegur í svörtu, hvítu, bláu, rauðu og grænu. Aftan á símanum má finna tvær myndavélar, 12 megapixla aðalmyndavél og 12 megapixla myndavél með víðlinsu.

iPhone 12 Mini er sniðinn að þeim sem kjósa minni skjá sem passar betur í hendi. Er síminn búinn 5,4 tommu skjá en líkist að öðru leyti áðurnefndum iPhone 12.

Hinir nýju iPhone 12 Pro Max.

iPhone 12 Pro Max skartar 6,7 tommu skjá, þeim stærsta sem Apple hefur sett á síma. Þá er hann búinn þremur myndavélum á bakhliðinni sem ná miklum aðdrætti og LIDAR-skynjara sem nýtist í forrit sem bjóða upp á svonefndan gagnaukinn veruleika (e. augmented reality).

iPhone 12 Pro svipar til forvera síns iPhone 11 Pro og er búinn 6,1 tommu skjá auk þeirra þriggja myndavéla og LIDAR-skynjara sem finna má á stóra bróðurnum. Bæði iPhone 12 Pro og iPhone 12 Pro Max skarta stálköntum og koma í fjórum litum: gráum, stálgráum, gulllituðum og bláum.