Apple varð í vikunni fyrsta fyrirtækið í sögunni til að ná markaðsverðmæti upp á meira en þrjár billjónir Bandaríkjadala. Þetta er USD 3.000.000.000.000, sem í íslenskum krónum er næstum 400 billjónir, eða fjórir með fjórtán núllum fyrir aftan.

Lex dálkurinn í Financial Times telur að vöxtur fyrirtækisins geti haldið áfram af fullum krafti meðal annars vegna þess að margar nýjungar eru á döfinni.

Hækkun hlutabréfa Apple hefur orðið vegna hárrar framlegðar frá áskriftum að veitum fyrirtækisins, auk mikillar söluaukningar þekktra vara á borð við iPhone.

Nýjustu iPhone 13 símarnir eru hannaðir fyrir 5G en eru svipaðir í útliti og eldri gerðir. Engu að síður renna þeir út eins og heitar lummur. Notendur, sem átt hafa sína gömlu síma í einhver ár og ekki hrifist af nýjum útgáfum, virðast tilbúnir að endurnýja nú. Í Bandaríkjunum bjóða símafyrirtæki á borð við AT&T afslátt fyrir þá sem skipta yfir í nýrri gerðir. Þrátt fyrir skort á örgjörvum jókst sala á iPhone um 39 prósent á síðasta ársfjórðungi og er iPhone nú gróskumesta deild fyrirtækisins.

Eftirspurn er mikil í Bandaríkjunum og Kína. Á síðasta ári skaut Apple Vivo ref fyrir rass og var mest seldi snjallsíminn í Kína. Var það í fyrsta sinn frá 2015 sem iPhone var mest seldi síminn þar.

Sölusamsetning Apple hefur breyst mikið á undanförnum árum. Árið 2018 stóð flokkurinn „annað“ – sem innihélt meðal annars AirPods og Apple úrin – undir sölu upp á 17 milljarða dala, eða sem nam 6,5 prósent af heildarsölu fyrirtækisins. Á síðasta ári hafði sala smáhluta (e. wearables) meira en tvöfaldast og stóð undir 10,5 prósentum af heildarsölu.

Það sem ekki hefur breyst er hve gríðarleg lausafjáruppspretta Apple er. Lausafjárstreymi fyrirtækisins á síðasta fjárhagsári var nærri 93 milljarðar dala, eða sem nemur næstum 2.900 milljörðum króna sem er um þrefaldar heildartekjur íslenska ríkisins. Markviss kaup eigin hlutabréfa hafa hins vegar haldið aftur af sjóðssöfnun og minnkað bilið milli rekstrarvirðis fyrirtækisins og markaðsvirðis þess.

Hertar reglur er eitt þess sem getur sett strik í reikninginn varðandi næsta billjón dala stökk Apple. Í Bretlandi telja samkeppnisyfirvöld tvíokun Apple og Google vistkerfisins ganga gegn hagsmunum neytenda. Apple hefur þegar afnumið app-store gjöld í Bandaríkjunum og í Kína reynir fyrirtækið eftir fremsta megni að forðast átök við yfirvöld.

Mikið af nýjungum er hins vegar á döfinni til að vega upp á móti auknu eftirliti og strangari reglum. Meðal annars er búist er við að Apple komi með gerviveruleikabúnað á þessu ári. Næsta billjón gæti verið skrifuð í skýin.