Tæknirisinn Apple varð í dag fyrsta fyrirtækið til þess að vera metið á yfir eina billjón Bandaríkjadala. Um er að ræða jafnvirði 107 billjóna íslenskra króna. Ein billjón samsvarar milljón milljónum.

Gengi hlutabréfa í fyrirtækinu hefur hækkað um 9 prósent frá því á þriðjudag. Gengi á hlut í fyrirtækinu er þessa stundina metið á 207 Bandaríkjadali. Samtals hefur gengi hlutabréfa í Apple hækkað um meira en 50.000 prósent frá því það fór á markað árið 1980.

Upphafsmenn Apple voru þeir Steve Jobs og Steve Wozniak. Jobs átti eftir að verða forstjóri fyrirtækisins og andlit þess út á við um árabil, allt þar til hann lést úr árið 2011 úr briskrabbameini. Þá tók Tim Cook við starfi forstjóra en hann hefur gegnt því síðan.

Vinsældir vara fyrirtækisins eru nær fordæmalausar. Það er alls ekki ólíklegt MacBook Air eða Pro tölvur sé að finna á heimilum víða hér á landi. Þá er sömuleiðis ansi líklegt að þar sé einnig að finna annað hvort iPhone snjallsíma, iPad spjaldtölvu eða Apple TV.