Tæknirisinn Apple hefur nú verið sektaður um 10,5 milljón brasilísk ríöl, eða rúmlega 240 milljón íslenskar krónur, fyrir að láta ekki hleðslutæki fylgja keyptum iPhone 12 símum í Brasilíu en neytendasamtökin Procon-SP segja málið vera brot á neytendalögum landsins.
Að því er kemur fram í frétt Engadget um málið höfðu neytendasamtökin haft samband við Apple vegna málsins í desember en þá hafi tæknirisinn sagt að engin hleðslutæki fylgdu með þar sem það myndi draga úr kolefnislosun auk þess sem margir ættu hleðslutæki fyrir sem hægt væri að nota.
Neytendasamtökin segja þó mikilvægt að Apple fari eftir brasilískum lögum og því hafi verið ákveðið að beita sektum. Apple getur áfrýjað niðurstöðunni en þar sem um tiltölulega lága upphæð er að ræða er ekki ólíklegt að þau komi til með að borga sektina.
The Morning After: Brazil wants in-box chargers with new iPhones https://t.co/HAj2jH8hhd pic.twitter.com/AXxK5DplKG
— Engadget (@engadget) March 22, 2021