Rafmyntamiðlunarfyrirtækið Genesis Trading hefur lokað fyrir innlausnir og lánveitingar á lánasviði sínu. Þetta gerir fyrirtækið vegna höggbylgja sem ríða yfir rafræna eignamarkaði í kjölfar falls rafmyntarisans FTX.

Genesis, sem er staðsett í New York, sendi í gær frá sér tilkynningu um að fall FTX hefði valdið óróa á mörkuðum og samtals væru innlausnarbeiðnir nú upp á hærri fjárhæð en fyrirtækið hefði handbæra.

Genesis er eitt stærsta fjármálafyrirtækið sem þjónar rafmyntamarkaðnum. Á vef Financial Times kemur fram að á síðasta ári hafi það lánað út meira en 131 milljarð Bandaríkjadala.

Fall Three Arrows, vogunarsjóðs í Singapore sem sérhæfði sig í rafmyntum, kom mjög illa við Genesis. Three Arrows hafði veðjað á bitcoin og fleiri rafmyntir en óskaði eftir gjaldþrotaskiptum í júlí þegar markaðurinn snerist gegn stöðutöku sjóðsins. Samkvæmt dómsskjölum hafði Genesis lánað Three Arrows 2,4 milljarða dollara án mikilla trygginga.

Fall rafmyntakauphallar Sam Bankman-Fried upp á 32 milljarða dollara og systurfyrirtækisins Alameda Research hefur hins vegar sent höggbylgjur yfir rafmyntageirann og aðrar kauphallir og lánveitendur reyna nú í óðaönn að sannfæra gagnaðila og markaðinn um að staða þeirra sé traust þrátt fyrir allt.

Genesis segist hafa ráðið bestu ráðgjafa á markaðnum til að fara gaumgæfilega yfir allar leiðir sem færar eru í stöðunni og boða að í næstu viku muni verða lögð fram áætlun um áframhaldandi útlánastarfsemi.

Samkvæmt upplýsingum frá Genesis starfar miðlunar- og vörsluhluti þess með eðlilegum hætti, enda sé miðlunarhlutinn fjármagnaður sérstaklega og ótengdur annarri starfsemi Genesis.

Móðurfyrirtæki Genesis, Digital Currency Group, sem er í eigu milljarðamæringsins Barry Silbert, hefur sent frá sér tilkynningu um að starfsemi þess og annarra dótturfyrirtækja standi traustum fótum.

Rafmyntafyrirtækið Gemini sendi frá sér tilkynningu um að því væri „kunnugt um“ stöðu mála hjá Genesis. Fyrirtækin eiga í samstarfi um fjármálagjörning sem á að tryggja viðskiptavinum ávöxtun, sem er áþekk því sem hefðbundin skuldabréf gefa af sér, gegn því að lána út rafmyntir.