Anna Lilja Björnsdóttir hefur verið ráðin í stöðu Manager Cabin Operations hjá Icelandair. Starfið er á flugrekstr­ar­sviði Icelanda­ir og felst meðal ann­ars í að stýra starfs­manna­mál­um flug­freyja og flugþjóna, ör­ygg­is­mál­um um borð auk fram­kvæmd­ar á allri þjón­ustu um borð í flug­vél­um fé­lags­ins.

Anna Lilja hóf störf hjá Icelandair árið 2016 sem flugfreyja en hefur starfað sem Cabin Manager frá árinu 2018. Þá kemur fram í tilkynningu að hún hafi einnig unnið að öðrum veigamiklum verkefnum fyrir Icelandair. Hún sat m.a. í samninganefnd fyrir hönd Icelandair gegn Flugfreyjufélagi Íslands í kjarabaráttu flug­freyja og flugþjóna í sumar.

Hún er með LL.M gráðu í Public Internation Law frá lagadeild Háskólans í Ósló, B.Sc gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst og kennsluréttindi frá Háskóla Íslands. Áður en hún höf störf hjá Icelandair var hún búsett í Kaupmannahöfn í níu ár, þar starfaði hún m.a. hjá fjárfestingafélagi og við hótelrekstur.

Anna Lilja er gift Ragnari Garðarssyni og eiga þau saman tvö börn.

Hún tekur við starfinu af Klöru Írisi Vigfúsdóttur sem sagði starfi sínu lausu í júlí síðastliðnum, í sömu viku og Icelandair sleit viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og sagði upp öllum flugfreyjum og flugþjónum fyrirtækisins. Klara hafði gegnt starfinu frá árinu 2017.