Fossar markaðir hafa ráðið til starfa tvo nýja starfsmenn í teymi eignastýringar félagsins, Anítu Rut Hilmarsdóttur og Þorlák Runólfsson.

Bæði koma til starfa í dag, á sama tíma og eignastýring Fossa flytur í nýtt húsnæði félagsins í Næpunni, á Skálholtsstíg 7 í Reykjavík. Næpan er sögufræg bygging, steinsnar frá höfuðstöðvum Fossa við Fríkirkjuveg. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Við hjá Fossum fögnum þessum öfluga liðsauka. Eignastýringin býður upp á fjárfestingarráðgjöf, einkabankaþjónustu og stýringu eignasafna. Það er skemmtilegt að fá þau Anítu og Þorlák til starfa á sama degi og eignastýringin færir sig yfir í Næpuna og við hlökkum til áframhaldandi uppbyggingar og spennandi verkefna með viðskiptavinum okkar,“ segir Anna Þorbjörg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri eignastýringar.

Aníta Rut Hilmarsdóttir kemur til Fossa frá markaðsviðskiptum Arion banka þar sem hún starfaði frá árinu 2019. Áður starfaði Aníta í eignastýringu fagfjárfesta Arion banka frá 2016 til 2019.

Hún er einnig meðal stofnenda Fortuna Invest, vettvangs á Instagram sem veitir fræðslu um fjárfestingar. Aníta er með BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Þorlákur Runólfsson hefur áralanga reynslu af störfum á fjármálamörkuðum og víðtæka reynslu af eignastýringu. Hann starfaði í Landsbankanum við lánshæfismat og rekstur framtakssjóða á árunum 1999-2001 og síðar á eignastýringarsviði Kaupþings til ársins 2009. Þar gegndi hann meðal annars stöðu forstöðumanns einkabankaþjónustu. Þá starfaði Þorlákur við eignastýringu í Lúxemborg á árunum 2009 til 2015.

Þorlákur er með BA gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og hefur jafnframt lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Magnús Stephensen, þriðji og síðasti landshöfðingi Íslands, reisti húsið Næpuna við Skálholtsstíg 7 í Reykjavík árið 1903. Hann bjó svo í húsinu frá 1904 til dauðadags 1917. Næpan, sem er glæsilegt tveggja hæða 500 fermetra timburhús með rishæð og steyptum kjallara, er talin draga nafn sitt af turni hússins. Húsið teiknaði Magnús Th. S. Blöndal byggingameistari og athafnamaður í Reykjavík. Húsið var í eigu Stephensen-fjölskyldunnar fram yfir 1920 en hefur verið í eigu ýmissa aðila síðan þá.