Andrew Bretaprins er sagður hafa misnotað stöðu sína til að hjálpa Rowland feðgunum, hluthöfum í Kaupþing, að fjárfesta í tengslum við Icesave. Hertoginn af Jórvík sendi Jonathan Rowland vinnuskjöl bresku ríkisstjórnarinnar um aðgerðir vegna Icesave deilnanna.

Hertoginn hvatti Rowland til að bíða með að grípa til aðgerða þangað til eftir þjóðaratkvæðagreiðslu Íslendinga árið 2010. Rowland feðgarnir David og Jonathan yfirtóku starfsemi Kaupþings í Lúxemborg og gerðust síðar hluthafar í MP banka, sem síðar varð Kviku banki.

Átta mánuðum eftir fall Kaupþings eignaðist Rowland fjölskyldan starfsemi Kaupþings í Lúxemborg og var Magnús Guðmundsson fyrsti framkvæmdastjóri bankans. Í kjölfarið var tilkynnt að að starfsemi þess væri skipt í tvennt að meginstarfsemin héldi áfram undir nafninu Banque Havilland. Magnús var handtekinn árið 2010 ásamt Hreiðari Má Sigurðssyni.

Breska dagblaðið Daily Mail birti í gær ítarlega umfjöllum um málið en þau hafa undir höndunum tölvupóstsamskipti sem Andrew Bretaprins átti við ýmsa viðskiptafélaga. Þar er fjallað um samskipti hertogans við David og Jonathan Rowland feðga.

Segist hafa hitt forsætisráðherra Ísland í Sviss

Andrew Bretaprins er sakaður um ítrekaða hagsmunaárekstra og um að nýtt sér stöðu sína til að fjárfesta í gegnum félög í skattaskjóli.

Í fréttinni er vitnað í tölvupóst þar sem kemur fram að forsætisráðherra Íslands hafi hitt Andrew Bretaprins árið 2010 í Davos í Sviss, mánuði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu Íslendinga um Icesave. Þá var Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, var á umræddri ráðstefnu í Davos.

Amanta Thirsk, einkaritari Andrew Bretaprins, sendi tölvupóst á Michael Ellam, sem starfar hjá breska fjármálaráðuneytinu. Þar var spurst fyrir um allar nýjustu upplýsingar varðandi stöðuna vegna Icesave deilunnar.

„Í grundvallaratriðum, þá hitti hertoginn af Jórvík forsætisráðherra Íslands í Davos og vill fá uppfærðar upplýsingar varðandi nýjustu stöðuna,“ segir í tölvupóstinum. Ellam hafi þá áframsent skeytið á Sophie Dean, einkaritara Alaister Darling fjármálaráðherra.

Fjármálaráðuneytið sendi því öll helstu gögn á einkaritara Andrew Bretaprins, og hertoginn sendi samdægurs umrædd gögn á Jonathan Rowland.

Hertoginn misnotaði því stöðu sína til að hjálpa Rowland feðgunum að fjárfesta í Kaupþing í kjölfar hruns.

Seðlabanki Íslands og Consolium

Kjarninn birti einnig frétt um málið í gær en vefmiðillinn hefur undir höndunum samskonar gögn og Daily Mail og hefur verið að rannsaka málið í rúmlega ár.

Í tölvupósti sem starfsfólk Banque Havilland sendi á Jonathan Rowland er minnst á Seðlabanka Íslands og Consolium, ráðgjafafyrirtæki Hreiðars Más.

„Ég fundaði með Hreiðari í morgun varðandi 370 milljóna króna kröfu Kaupþings sem Seðlabanki Íslands heldur utan um. Nú lítur það út fyrir að við getum gert samning þar sem bankinn mun fá að minnsta kosti 615 þúsund evru ávinning (þriðjungur af söluþóknun þar sem resting greiðist inn á Consolium),“ segir í tölvupóstinum sem Kjarninn birti.

Fréttin hefur verið uppfærð.