Andreas hefur starfað hjá auglýsingastofunni í meira en fimm ár, bæði sem starfrænn markaðssérfræðingur og frá því í janúar sem yfirmaður stafrænu deildarinnar. Andreas er með mastersgráðu í stjórnun frá Háskólanum í Sheffield á Englandi og er talinn vera einn af helstu sérfræðingum í stafrænni markaðssetningu á Íslandi.

„Ég er fyrst og fremst stoltur og þakklátur að fá að verða hluti af þessum hópi stjórnenda og því trausti sem Sahara sýnir mér. Við erum á tímamótum á mörgum sviðum; má þar nefna opnun skrifstofu fyrr á þessu ári í Orlando í Bandaríkjunum; stofnun Sahara Academy og Sahara Festival sem var haldin í fyrsta skipti á síðasta ári,“ segir Andreas og bætir við: „Við erum rétt að byrja okkar vegferð og ég hlakka til að halda áfram spennandi þróun fyrirtækisins á innlendum sem og alþjóðlegum markaði.“

Sigurður Svansson, einn af eigendum Sahara sem nú stýrir skrifstofu fyrirtækisins í Bandaríkjunum tekur undir og segist mjög ánægður að fá Andreas inn sem meðeiganda.

„Allt frá því hann fyrst hóf störf hjá fyrirtækinu hefur hann verið virkur þátttakandi í uppbyggingu þess. Andreas býr yfir viðamikilli og dýrmætri reynslu á sviði stafrænnar markaðssetningar og er ég því fullur tilhlökkunar að vinna með Andreasi að áframhaldandi vexti Sahara í framtíðinni,“ segir Sigurður.