Andrea Róberts­dóttir hefur verið ráðin sem fram­kvæmda­stjóri Fé­lags kvenna í at­vinnu­lífinu en þetta kemur fram í frétta­til­kynningu um málið. Hún tekur við starfinu um miðjan októ­ber af Hrafn­hildi Haf­steins­dóttur sem ráðin var markaðs- og gæða­stjóri Hjalla­stefnunnar í septem­ber.

„Það gustar alltaf ofur­kraftur til góðra verka af sterkum hópi ó­líkra kvenna sem sækir fram í takt. Það er ná­kvæm­lega þannig sem ég sé FKA fyrir mér. Ein­stök orka sem létti­lega er hægt að tappa á flöskur og flytja út,“ segir Andrea og bætir við að hún sé full til­hlökkunar að mæta til starfa.

Með víðtæka reynslu

Í til­kynningunni kemur fram að Andrea hafi víð­tæka reynslu á sviði stjórnunar og yfir­grips­mikla reynslu af verk­efna og við­burða­stjórnun. Hún hefur annast fjöl­miðla­tengsl, al­manna- og kynningar­mál og hefur mikla reynslu úr fjöl­miðlun

Andrea er með MS gráðu í mann­auðs­stjórnun, BA gráðu í fé­lags- og kynja­fræði og MA diplómu í já­kvæðri sál­fræði. Hún hefur starfað síðast­liðin ár hjá Tali og Kaffi­tári sem fram­kvæmda­stjóri og for­stöðu­maður, hjá RÚV sem mann­auðs­stjóri og hjá Hjalla­stefnunni sem verk­efna­stjóri.