Stjórnendur líftæknifyrirtækisins Alvotech skoða nú alvarlega þann valkost að félagið verði einnig skráð á hlutabréfamarkað á Íslandi samtímis skráningu í kauphöll í Bandaríkjunum næstkomandi haust.

Samkvæmt heimildum Markaðarins horfir félagið til þess að sækja sér um 150 til 175 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 18 til 22 milljarða íslenskra króna, með hlutafjárútboði í aðdraganda skráningarinnar, sem yrði þá bæði frá erlendum og innlendum fjárfestum. Sú fjármögnun kæmi til viðbótar við um 250 milljónir dala sem Alvotech hyggst vera búið að tryggja sér frá erlendum fjárfestum í gegnum svonefnt sérhæft yfirtökufélag (e. SPAC) á bandaríska markaðinum.

Áætlað er að tilkynnt verði um skráningaráform Alvotech vestanhafs í næsta mánuði og að áskriftasöfnun vegna hlutafjárútboðsins hefjist á komandi vikum, að sögn þeirra sem þekkja vel til. Stefnt er að skráningu félagsins í annaðhvort bandarísku kauphöllina Nasdaq eða Kauphöllina í New York (NYSE) sem gæti þá orðið að veruleika í október á þessu ári.

Ef áform Alvotech um tvískráningu í Bandaríkjunum og á Íslandi ganga eftir, verða Landsbankinn og Arion banki fengnir sem ráðgjafar við skráningu og hlutafjárútboð hér innanlands, samkvæmt heimildum Markaðarins. Bankarnir vinna nú að því að meta mögulega eftirspurn frá íslenskum stofnana- og fagfjárfestum en ljóst þykir að það fjármagn sem Alvotech hyggst afla sér í gegnum slíkt hlutafjárútboð verður að stærstum hluta frá erlendum fjárfestum.

Forsvarsmenn Alvotech, sem er stýrt af Róberti Wessman, stofnanda félagsins, sögðust ekki geta tjáð sig um skráningarferlið á þessu stigi málsins.

Upphaflega stóð til af hálfu stjórnenda Alvotech að skrá félagið á markað í Asíu, en horfið var frá því fyrr á árinu og þess í stað einblínt á Bandaríkjamarkað. Þá ákvörðun má einkum rekja til uppgangs sérhæfðra yfirtökufélaga vestanhafs en mörg þeirra einblína á yfirtöku á líftæknifyrirtækjum.

Sú fjármögnun sem Alvotech stefnir að því að safna sér í gegnum slíkt yfirtökufélag, verður á sambærilegu gengi og þegar hluti eigenda breytanlegra skuldabréfa að fjárhæð 106 milljóna dala nýttu rétt sinn til að breyta þeim bréfum í hlutafé í líftæknifyrirtækinu, sem verðmat það á jafnvirði um 300 milljarða íslenskra króna. Framkvæmd þess útboðs var í höndum Morgan Stanley og Arion banka.

Innlendir fjárfestar, sem eru ekki hluti af stjórnendateymi lyfjafyrirtækisins, komu í fyrsta sinn inn í hluthafahóp Alvotech fyrr í vetur, þegar félagið sótti sér um 100 milljónir dala í lokuðu hlutafjárútboði. Íslensku fjárfestarnir, sem voru Stefnir tryggingafélag, Hvalur og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, lögðu Alvotech þá til um 2 milljarða króna sem tryggði þeim liðlega hálfs prósents eignarhlut í félaginu.

Alvotech vinnur að þróun sjö líftæknilyfja, þar á meðal hliðstæðulyfsins Humira, sem er söluhæsta lyf heims. Á næstu árum renna mörg einkaleyfi líftæknilyfja út, sem skapar tækifæri fyrir fyrirtæki á borð við Alvotech til að setja sambærileg lyf á markað. Í viðtali við Markaðinn í síðasta mánuði sagði Róbert að áfangagreiðslur, sem kveðið er á um í þeim fjölda samninga sem Alvotech hefur gert um sölu og dreifingu, geti skilað félaginu allt að 130 milljarða króna tekjum á næstu árum.

Alvotech er í meirihlutaeigu Aztiq Pharma, fjárfestingafélags Róberts. Þá er systurfélagið Alvogen stór hluthafi, en þar eru fyrir fjárfestingasjóðirnir CVC Capital Management og Temasek.