Alvotech og alþjóðlegi lyfjarisinn Teva Pharmaceuticals hafa gert samstarfssamning um þróun, framleiðslu og markaðssetningu fimm líftæknilyfja í Bandaríkjunum. Samningurinn tryggir Alvotech tekjur upp á hundruð milljarða króna á næstu árum, að sögn Róberts Wessman, stofnanda fyrirtækisins, sem segir útlit fyrir að Alvotech ráði til sín 70 vísindamenn og sérfræðinga til viðbótar við þá 480 sem nú starfa hjá Alvotech. Þróun og framleiðsla líftæknilyfja geti orðið ein af burðarstoðum íslensks útflutnings.

„Við gerum ráð fyrir því að Bandaríkin skili okkur um 500 milljarða króna tekjum á næstu 10 árum. Þessi samningur er stór hluti af því,“ segir Róbert í samtali við Fréttablaðið.

Með samkomulaginu hefur Teva tryggt sér markaðsleyfi fyrir lyf Alvotech þegar þau koma á markað á næstu árum og þau verða öll framleidd í hátæknisetri fyrirtækisins á Íslandi. Þau lyf sem Alvotech hefur í þróun eru meðal annars notuð til meðferðar á sjúkdómum eins og gigt og krabbameini og eru öll í hópi söluhæstu lyfja heims í dag.

„Við erum þakklát fyrir það traust sem Teva sýnir okkur með svo stórum samstarfssamningi en þessi mikilvægi áfangi styður enn frekar við áframhaldandi vöxt og þróun fyrirtækisins. Undir samninginn falla fimm líftæknilyf, af þeim átta sem nú eru í þróun,“ segir Róbert.

Róbert Wessman, stofnandi Alvotech.
Ljósmynd/Alvotech

Aðspurður segir Róbert að samningurinn við Teva sé sá stærsti sem Alvotech hefur gert til þessa, hann sé líklega sá stærsti sem hafi verið gerður í þeim geira sem fyrirtækið starfar í. Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst er umræddur viðskiptasamningur á meðal þeirra stærstu ef ekki sá stærsti sem íslenskt fyrirtæki hefur gert.

Samningurinn við Teva er einn af mörgum samstarfssamningum sem Alvotech hefur gert undanfarin misseri og má þar nefna samstarf við Stada fyrir Evrópumarkaði, Jamp í Kanada og Fuji Pharma í Japan. Þá hefur fyrirtækið hafið byggingu á nýrri lyfjaverksmiðju í Kína sem mun þjónusta þann markað á næstu árum.

Líftæknilyf, sem eru á meðal mest seldu lyfja heims, eru skilgreind þannig að þau eru lyf sem eru framleidd með hjálp lífvera. Þau eru flóknari í þróun og framleiðslu en hefðbundin lyf og kosta því umtalsvert meira. Á næstu árum renna mörg einkaleyfi líftæknilyfja út, sem skapar tækifæri fyrir fyrirtæki á borð við Alvotech til að setja sambærileg lyf á markað á sama tíma og heilbrigðisyfirvöld geta lækkað lyfjakostnað sinn umtalsvert og aukið aðgengi sjúklinga að nýjum lyfjum.

Alvotech tilkynnti nýlega um góðan framgang á klínískum rannsóknum á sínu fyrsta lyfi. Um er að ræða líftæknihliðstæðu lyfsins Humira, sem er í dag söluhæsta lyf heims og selst fyrir um 20 milljarða Bandaríkjadala á ári. Stefnt er að því að markaðssetja lyfið á heimsvísu á árinu 2023 og síðar, en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er lyfið hluti af samstarfssamningi Alvotech.

Samningurinn felur í sér veglega upphafsgreiðslu og áfangagreiðslur til Alvotech, auk þess sem fyrirtækin skipta með sér ágóða vegna sölu lyfsins í Bandaríkjunum.

„Við sjáum fyrir okkur að bæði Alvotech og Ísland geti verið í leiðandi hlutverki á sviði líftækni á heimsvísu.“

Frá stofnun Alvotech nemur heildarfjárfesting fyrirtækisins í uppbyggingu og þróunarstarfi í fjórum löndum um einum milljarði Bandaríkjadala, eða um 136 milljörðum króna. Þar af nema framlög hluthafa fyrirtækisins um 700 milljónum Bandaríkjadala eða um 95 milljörðum króna.

Meðal eigenda Alvotech eru tveir af stærstu fjárfestingarsjóðum heims, CVC Capital Partners og Temasek, í gegnum eignarhlut Alvogen í fyrirtækinu, auk japanska lyfjafyrirtækisins Fuji Pharma og eins stærsta fjárfestingarsjóðs Mið- Austurlanda, Yas Holding. Stærsti einstaki hluthafi Alvotech, Aztiq Pharma, er fjárfestingarsjóður undir forystu Róberts.

Ráða til sín tugi sérfræðinga

Samningurinn við Teva hefur mikla þýðingu fyrir starfsemi Alvotech á Íslandi en framleiðsla og útflutningur lyfjanna verður frá Íslandi. Auk þess stefnir fyrirtækið að frekari vexti hér á landi. Í dag starfa um 480 vísindamenn og sérfræðingar hjá Alvotech og gæti þeim fjölgað um 70 ef áætlanir fyrirtækisins ganga eftir. Þróun og framleiðsla líftæknilyfja gæti orðið ein af burðarstoðum íslensks útflutnings, að sögn Róberts.

„Við sjáum fyrir okkur að bæði Alvotech og Ísland geti verið í leiðandi hlutverki á sviði líftækni á heimsvísu og samhliða því verði til ný atvinnugrein hér á landi. Það eru ekki mörg fyrirtæki í heiminum eins og Alvotech vegna þess að þekkingin, sem lyfjaþróun af þessu tagi krefst og við erum að byggja upp hér á landi, er vandfundin,“ segir Róbert og nefnir sem dæmi að hjá Alvotech starfi vísindamenn og sérfræðingar frá 45 löndum. Starfsemi fyrirtækisins í dag er auk Íslands, í Þýskalandi, Sviss og í Bandaríkjunum.

„Ég vona að fjárfestar, og aðrir sem hafa metnað fyrir lyfjaþróun og auknu aðgengi sjúklinga að líftæknilyfjum, sjái tækifæri í því að fylgja í fótspor okkar og annarra þegar fram í sækir,“ bætir hann við. Hins vegar gekk erfiðlega að finna fjármagn hér á landi þegar fyrirtækinu var komið á fót árið 2012.

„Ef ég á að vera hreinskilinn gekk erfiðlega að fjármagna uppbyggingu fyrirtækisins til að byrja með. Hagkerfið var enn að jafna sig og fjármálamarkaðurinn var í ákveðnum dvala. Við höfðum úr fleiri staðsetningum að velja og vorum komin langt með að fjárfesta á Möltu, sem hefur skapað lyfjaiðnaðinum hagstætt umhverfi. En þetta hafðist allt að lokum og það fer vel um okkur innan Vísindagarða Háskóla Íslands,“ segir Róbert.