Berglind kemur til Alvotech frá lögmannsstofunni BBAFjeldco, þar sem hún gegndi meðal annars starfi regluvarðar Alvotech frá skráningu félagsins á Nasdaq markaðinn í Bandaríkjunum og First North markaðinn á Íslandi í júní 2022 og á Aðalmarkað Nasdaq Iceland 8. desember 2022. Hún var einnig regluvörður Ölgerðarinnar og Nova klúbbsins frá skráningu félaganna á Aðalmarkað Nasdaq Iceland.
Berglind er héraðsdómslögmaður og er með BA og ML próf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún starfaði í um 15 ár hjá Landsbankanum, annars vegar í lögfræðiþjónustu fyrirtækjasviðs við ráðgjöf tengda fjármögnun fyrirtækja og hins vegar í regluvörslu Landsbankans í eftirliti með verðbréfaviðskiptum, aðgerðum gegn markaðssvikum og ráðgjöf um stjórnarhætti.
„Þetta er eina íslenska félagið sem er með skráð hlutabréf í Bandaríkjunum og á Íslandi samhliða."
„Það er mikil tilhlökkun að ganga til liðs við teymi Alvotech og þjóna á annað þúsund hluthöfum félagsins innanlands og utan, eftir að hafa kynnst fyrirtækinu vel á síðasta ári. Fyrirtækið starfar í fjölbreyttu alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og þetta er eina íslenska félagið sem er með skráð hlutabréf í Bandaríkjunum og á Íslandi samhliða. Það eru því sannarlega spennandi verkefni framundan,“ sagði Berglind.