Fyrr á árinu tilkynnti Alvotech að umsóknir um markaðsleyfi fyrir AVT04 hefðu verið teknar til meðferðar m.a. af Lyfjastofnun Evrópu (EMA) og Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA).

Veggspjaldakynning Alvotech fjallar um niðurstöður rannsóknar á lyfjahvörfum AVT04 í heilbrigðum einstaklingum. Í rannsókninni (AVT04-GL-101) voru borin saman lyfjahvörf í þremur hópum sem fengu skammt undir húð af AVT04 eða Stelara frá bandarískum og evrópskum mörkuðum. Alvotech tilkynnti í maí 2022 að niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að lyfjahvörf, öryggi, þolanleiki og ónæmingarverkun væru jafngild fyrir AVT04 og samaburðarlyfið.

Önnur veggspjaldakynning Alvotech á ráðstefnunni fjallar um niðurstöður rannsóknar sem bar saman klíníska virkni, öryggi og ónæmingarverkun AVT04 og samanburðarlyfsins Stelara. Rannsóknin (AVT04-GL-301) fór fram í sjúklingum með miðlungsmikinn og verulegan psoriasis. Alvotech tilkynnti í maí 2022 að aðalendapunktur rannsóknarinnar hefði verið uppfylltur og sýndu niðurstöður hennar jafngilda klíníska virkni fyrirhugaðrar líftæknilyfjahliðstæðu Alvotech og Stelara.

Veggspjöldin verða aðgengileg fyrir ráðstefnugesti frá og með deginum í dag. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á heimasíðu AAD samtakanna.

AVT04 er einstofna mótefni og líftæknilyfjahliðstæða við Stelara (ustekinumab). Ustekinumab binst tveimur frumuboðefnum í ónæmiskerfinu, interleukin-12 og interleukin-23. AVT04 var þróað í Sp2/0 frumulínu. Við framleiðsluna er beitt stöðugri gegnumflæðisaðferð (e. continuous perfusion process). AVT04 er lyf í þróun og hefur ekki enn hlotið markaðsleyfi.