Samruninn mun skila Alvotech um 450 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur tæpum 60 milljörðum íslenskra króna í auknu fjármagni, með fyrirvara um mögulegar innlausnir hluthafa Oaktree. Annars vegar er um að ræða 250 milljóna dala innspýtingu úr sjóðum Oaktree og hins vegar 150 milljóna dala beina hlutafjáraukningu frá alþjóðlegum fjárfestum. Meðal fjárfesta eru Suvretta Capital, Athos (sem er fjárfestingafélag Strüngmann-fjölskyldunnar), CVC Capital Partners, Temasek, Farallon Capital Management, Sculptor Capital Management, og íslenskur fjárfestahópur leiddur af Arion Banka, Landsbankanum og Arctica Finance. Núverandi hluthafar leggja fram 50 milljóna dala. Heildarvirði sameinaðs fyrirtækis er áætlað um 2,25 milljarðar dala.

Núverandi hluthafar eiga áfram um 80% hlutafjár

Samhliða viðskiptunum munu hluthafar Alvotech skipta sínu hlutafé fyrir bréf í sameinuðu félagi. Að því gefnu að enginn núverandi hluthafa Oaktree nýti innlausnarrétt sinn munu núverandi hluthafar Alvotech eiga rúmlega 80 prósent í sameinuðu félagi, hluthafar Oaktree 11 prósent, og fyrrnefndir fjárfestar, sem koma með nýtt fé inn í tengslum við sameininguna, um 7 prósenta hlut í félaginu við lokun viðskiptanna.

Alvotech var stofnað árið 2013 af Róberti Wessman og er í meirihlutaeigu Aztiq, fjárfestingafélags Róberts

Eftirspurn eftir i líftæknilyfjum og hliðstæðum þeirra hefur aukist hratt á heimsvísu undanfarinn áratug. Því er spáð að markaður fyrir þessi lyf muni vaxa um meira en tíu prósent á ári og að innan fimm ára nemi velta með líftæknilyf 555 milljörðum Bandaríkjadala. Á sama tíma muni markaðurinn með líftæknihliðstæðulyf (e. biosimilars), eins og þau sem Alvotech þróar og framleiðir, vera farinn að velta um 80 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur yfir 10 þúsund milljörðum króna.

Hjá Alvotech starfa ríflega 700 starfsmenn og eru margir þeirra vísindamenn í fremstu röð á sínu sviði. Fyrirtækið er með starfsstöðvar í fimm löndum, en höfuðstöðvar og framleiðsla Alvotech er á Íslandi, í hátæknisetri fyrirtækisins í Vatnsmýrinni í Vísindagörðum Háskóla Íslands. Nú er verið að byggja við hátæknisetrið og verður húsnæði fyrirtækisins tvöfaldað í árslok 2022. Háskólinn mun í framtíðinni hafa aðgang að rannsóknarstofum fyrirtækisins. Heildarfjárfesting í fyrirtækinu frá stofnun, þar með talið í þróun, er um 1 milljarður Bandaríkjadala.

Búið að gera marga sérleyfissamninga um sölu og dreifingu á lyfjum Alvotech
Alvotech hefur þegar gert samninga um forsölu lyfja með samstarfssamningum við önnur stór lyfjafyrirtæki sem sjá um sölu og dreifingu framleiðslunnar í yfir 60 löndum. Þar á meðal eru t.a.m. lyfjarisinn Teva í Bandaríkjunum og Stada í Evrópu sem greiða Alvotech fyrir sérleyfi til markaðssetningar lyfja sem fyrirtækið þróar og framleiðir. Alls hefur Alvotech þegar selt sérleyfi fyrir jafnvirði hátt í 1,15 milljarða Bandaríkjadala og eiga um 80% samningsfjárhæðanna eftir að greiðast til félagsins.

Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech, segist vera spenntur fyrir þessum stóra áfanga og næstu skrefum í þá átt að skrá félagið á bandarískan markað sem og samstarfinu við Oaktree. „Þessi viðskipti sem við tilkynnum í dag eiga að gera okkur kleift að bæta fleiri lyfjum í þróun og með því leggja frekari drög að langtíma vexti fyrirtækisins.”

Howard Marks, stofnandi og annar stjórnarformanna Oaktree, segir að Alvotech hafi orðið fyrir valinu vegna þess að líftæknihliðstæðulyf geti orðið til að breyta lífi fólks. „Aukin krafa um sjálfbærni í heilbrigðisgeiranum er vindur í seglin fyrir Alvotech og fyrir líftæknihliðstæður almennt í náinni framtíð.”

Stefnir á að verða leiðandi í líftæknihliðstæðum

Alvotech stefnir á að verða leiðandi fyrirtæki í heiminum í líftæknihliðstæðulyfjum. Fyrirtækið vinnur að þróun og framleiðslu sjö líftæknilyfja sem eru meðal annars notuð við meðhöndlun á margvíslegum sjúkdómum eins og sjálfsónæmis- og bólgusjúkdómum, krabbameini, augnsjúkdómum og beinþynningu. Líftæknilyf innihalda flóknar prótínsameindir sem hafa afar sértæka verkun og reynast vel við meðhöndlun margra erfiðra sjúkdóma. Hliðstæður þessara lyfja hafa sömu virkni og eru jafn örugg og frumlyfið en eru mun hagkvæmari í þróun og framleiðslu og því hægt að bjóða þau á töluvert lægra verði en frumlyfið.

Ráðgjafar Alvotech í viðskiptunum voru Morgan Stanley og Credit Suisse voru. Deutche Bank Securities og Citigroup Global Markets Inc. voru ráðgjafar Oaktree Acquisition Corp II. Landsbankinn, Arion Banki og Arctica Finance voru innlendir ráðgjafar við viðskiptin.