Golimumab er einstofna mótefni sem hamlar frumuboðefninu tumor necrosis factor alpha (e. TNF alpha). Aukið magn TNF alpha er talið geta verið orsakaþáttur í þrálátum bólgusjúkdómum, s.s. liðagigt, sóraliðagigt og hrygggigt.
Joseph McClellan, rannsóknastjóri Alvotech, segist fagna framgangi á þróun lyfsins. „Með því að hefja klínískar rannsóknir á fimmtu líftæknilyfjahliðstæðunni, undirstrikum við enn betur það markmið fyrirtækisins að auka lífsgæði með bættu aðgengi að hagkvæmari líftæknilyfjum,“ segir Joseph.
Tekjur af sölu Simponi og Simponi Aria námu tæplega 320 milljörðum króna, eða jafnvirði 2,2 milljarða Bandaríkjadala, á tólf mánaða tímabili sem lauk 1. október í fyrra samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda frumlyfsins, lyfjafyrirtækinu Johnson and Johnson.
Alvotech vinnur að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða, við sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdómum, beinþynningu og krabbameini.
Fyrsta lyf fyrirtækisins, hliðstæða við Humira (e. adalimumab) kom á markað í Evrópu og Kanada í vor og hefur lyfið hlotið markaðsleyfi í 35 löndum í Norður-Ameríku, Evrópu, Asíu og Eyjaálfu. Umsókn um markaðsleyfi fyrir lyfið í Bandaríkjunum er nú í ferli.