Alvotech og kínverska lyfjafyrirtækið Yangtze River Pharmaceutical Group hafa gert samstarfssamning um þróun, framleiðslu og markaðssetningu átta líftæknilyfja Alvotech í Kína. Umrædd lyf eru í hópi stærstu líftæknilyfja á heimsvísu og eru notuð notuð til meðferðar á erfiðum sjúkdómum, eins og t.d. gigt, psoriasis og krabbameini. Lyfin verða framleidd í nýrri lyfjaverksmiðju sem nú er í byggingu í Changchun í Kína.

Hátæknisetur Alvotech á Íslandi mun þróa og framleiða lyf fyrirtækisins fyrir alla aðra markaði og þar eru höfuðstöðvar fyrirtækisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alvotech. Þar er haft eftir Róberti Wessman, stofnanda og stjórnarformanni íslenska lyfjafyrirtækisins, að með samstarfinu fái Alvotech aðgang að stórum og mikilvægum lyfjamarkaði í Kína. Á næstu árum verði stefnt að því að auka aðgengi sjúklinga í Kína að hágæða líftæknilyfjum er haft eftir Róbert. Yangtze River Pharmaceutical Group er eitt af stærstu lyfjafyrirtækjum í Kína, með langa sögu og sterka stöðu á þessum næst stærsta lyfjamarkaði heims.

Þá segir í tilkynningunni að samningur Alvotech, Yangtze River Pharmaceutical Group og samstarfsaðila fyrirtækisins í Kína, Changchun High & New Technology sé einn af mörgum samningum sem Alvotech hefur gert nýverið við leiðandi alþjóðleg lyfjafyrirtæki. Nýlega var greint frá samstarfi Alvotech við Teva Pharmaceuticals i Bandaríkjunum, STADA í Evrópu, Fuji Pharma í Japan, JAMP Pharma í Kanada og Yas Holding í Mið- Austurlöndum.

„Umræddir samstartssamningar eru einkar mikilvægir fyrir Alvotech sem tryggja fyrirtækinu áframhaldandi fjárstuðning við sín þróunarverkefni og þegar lyf fyrirtækisins verða markaðssett um allan heim verður það gert með öflugum lyfjafyrirtækjum,“ segir í tilkynningunni.