Alvotech, íslenska líftæknifyrirtækið, sem var stofnað af Róberti Wessman, vinnur nú að útgáfu á nýju hlutafé að fjárhæð hundrað milljónir dala, jafnvirði rúmlega 13 milljarða króna. Samkvæmt upplýsingum frá Alvotech er stefnt að því að ljúka við útgáfuna nú í sumar. Miðað við gengið í hlutafjáraukningunni er verðmæti félagsins um 1,5 milljarðar Bandaríkjadala, jafnvirði nærri 200 milljarða íslenskra króna, og þeir fjárfestar sem taka þátt munu því eignast samanlagt um sjö prósenta hlut í Alvotech.

Fjármögnuninni er ætlað að styðja við starfsemi Alvotech fram að áformaðri skráningu félagsins á markað á næsta ári samhliða hlutafjárútboði. Fram hefur komið að forsvarsmenn Alvotech horfi þar einkum til kauphalla í Hong Kong eða New York. Alþjóðlegu fjárfestingabankarnir Morgan Stanley, Goldman Sachs og HSBC voru fengnir sem ráðgjafar til að vinna að hlutafjáraukningunni í lok síðasta árs.

Alvotech var rekið með um 140 milljóna dala tapi í fyrra, borið saman við 133 milljónir dala á árinu 2018. Tekjur Alvotech, sem hafa verið nánast engar á undanförnum árum, þar sem félagið hefur ekki enn hafið sölu neinna lyfja, jukust mikið á síðasta ári og námu samtals 78 milljónum dala, en á sama tíma hækkaði launa- og fjármögnunarkostnaður verulega. Eigið fé var neikvætt um 374 milljónir dala í árslok 2019 en heildarskuldir félagsins, sem eru einkum lántökur, námu liðlega 712 milljónum dala.

Fram kemur í nýbirtum ársreikningi að félagið hafi í lok síðasta árs gjaldfært um 28,4 milljónir dala, jafnvirði um 3,8 milljarða íslenskra króna, vegna kaupaukagreiðslna sem Alvotech mun þurfa að inna af hendi til núverandi og fyrrverandi stjórnenda. Kaupaukakerfinu var komið á fót árið 2015 og ákvarðast heildargreiðslurnar til stjórnenda meðal annars af hækkun á markaðsvirði hlutafjár Alvotech á undanförnum árum. Samkvæmt upplýsingum sem fengust frá Alvotech nær kaupaukakerfið til rúmlega 20 starfsmanna félagsins. Gert er ráð fyrir að kaupaukarnir verði greiddir út á árunum 2021 og 2022.

Samtals eru átta líftæknilyf í þróun hjá Alvotech um þessar mundir en um 460 vísindamenn og sérfræðingar starfa hjá félaginu, sem starfrækir meðal annars hátæknisetur í Vatnsmýrinni í Reykjavík, í fjórum löndum. Í fyrra hófust klínískar rannsóknir á fyrsta lyfi Alvotech, sem er hliðstæða lyfs­ins Humira og er meðal ann­ars notað við liðagigt, og kom fram í tilkynningu fyrirtækisins í síðasta mánuði að niðurstöður þeirra hefðu verið jákvæðar. Lyfið Humira er í dag söluhæsta lyf heims og selt fyrir um 20 milljarða Bandaríkjadala, en Alvotech hyggst selja líftæknihliðstæðu þess í samstarfi við aðra, á öllum lyfjamörkuðum heims.

Í lok síðasta árs kom alþjóðlegi fjárfestingasjóðurinn Yas Holding, sem er með höfuðstöðvar í Abú Dabí, í hluthafahóp Alvotech, þegar sjóðurinn eignaðist um 2,5 prósenta hlut með kaupum á nýju hlutafé ásamt samstarfssamningi um þróun, framleiðslu og sölu lyfja félagsins. Virði samkomulagsins var um 45 milljónir dala. Ári áður hafði verið tilkynnt um kaup japanska lyfjafyrirtækisins Fuji Pharma á um 4,2 prósenta hlut í Alvotech fyrir um 50 milljónir dala og var markaðsvirði félagsins í þeim viðskiptum því um 1,2 milljarðar dala.

Alvotech er í meirihlutaeigu Aztiq Pharma, undir forystu Róberts Wessman, stjórnarformanns fyrirtækisins. Auk Yas og Fuji Pharma er systurfyrirtækið Alvogen stór hluthafi, en þar eru fyrir einir stærstu fjárfestingasjóðir í heiminum í dag, CVC Capital Management og Temasek sem er fjárfestingasjóður Singapore.