Halldór Kristmannsson, fyrrverandi samskiptastjóri Alvogen og einn nánasti samstarfsmaður Róberts Wessman um langt skeið, stofnanda fyrirtækisins, upplýsti um það í viðtölum við lögmannsstofuna White & Case, sem var falið að framkvæma athugun á ásökunum hans á hendur Róberti, að hafa fundað með Björgólfi Thor Björgólfssyni, fjárfesti og aðaleiganda Novator, í nóvember 2020.

Í stefnu Alvogen á hendur Halldóri, sem var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær og Markaðurinn hefur undir höndum, er fullyrt að samkvæmt lýsingum Halldórs sjálfs hafi tilgangur hans með fundinum verið að „afla upplýsinga í því skyni að reyna að koma sér í aðstöðu sem gæti nýst honum til að gera kröfur á hendur félaginu um fjárhagslegt uppgjör sér til handa.“

Alvogen segir í stefnunni að félagið telji „slík samskipti mjög alvarlegt trúnaðarbrot. Þessi samskipti eru í ljósi ráðningarsamnings og trúnaðarskyldu [Halldórs] með öllu óeðlileg. Þessar upplýsingar komu [Alvogen] í opna skjöldu.“

Róbert og Björgólfur Thor hafa lengi eldað grátt silfur saman, sem rekja má allt aftur til ágústmánaðar 2008 þegar Róbert hætti störfum hjá Actavis, en félag Björgólfs fór þá með ráðandi eignarhlut í lyfjafyrirtækinu. Hafa deilur þeirra á milli oftar en einu sinni ratað í dómsal á undanförnum árum.

Í dómkröfum Alvogen er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að félaginu hafi verið heimilt, eftir að nefnd óháðra stjórnarmanna móðurfélags Alvogen hafi ályktað þess efnis, að rifta fyrirvaralaust ráðningarsamningi við Halldór undir lok síðasta mánaðar. Þá er þess krafist að Halldór verði dæmdur til að greiða rúmlega 8,5 milljónir, eða sem nemur sexföldum mánaðarlaunum, ásamt dráttarvöxtum.

Að lokum fer Alvogen fram á að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda Halldórs gagnvart fyrirtækinu. Annars vegar vegna „brots á trúnaðarskyldu hans í starfi hjá [Alvogen] sem fólst í veitingu upplýsinga um viðskiptaleyndarmál til fjölmiðla og hins vegar með því að brjóta gegn starfsskyldum sínum með því að vega að orðspori samstæðu [Alvogen], sem hafi valdið [félaginu] tjóni.“

Halldór Kristmannsson, fyrrverandi samskiptastjóri Alvogen og Alcotech.

Í yfirlýsingu sem Halldór sendi frá sér 29. mars síðastliðinn kom fram að hann hefði skorað á stjórnir Alvogen og systurfélags þess Alvotech að víkja Róberti úr starfi vegna stjórnarhátta hans og meintrar, ósæmilegrar hegðunar. Sakaði hann Róbert um að hafa beitt sig ofbeldi og hótað starfsmönnum og óvildarmönnum lífláti.

Stjórn Alvogen hafði tæpri viku áður sent frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að niðurstaða White & Case vegna umræddra kvartana hefði verið skýr og að þær ættu sér enga stoð. Athugun lögmannsstofunnar hefði falist í því að rýna í fjölda gagna, auk þess sem rætt hefði verið við Halldór og tugi fyrrverandi og núverandi starfsmanna Alvogen. Var því ekki talin ástæða til að aðhafast neitt vegna málsins.

Halldór hefur hins vegar, nú síðast í yfirlýsingu í gærmorgun, sagt niðurstöðu White & Case vera „hvítþvott“ og hefur áhyggjur af því að „aðgerðaleysi“ fyrirtækjanna gagnvart Róberti kunni að skaða orðspor þeirra.

Í fyrrnefndri stefnu Alvogen á hendur Halldóri er sagt að hann hafi sent fjögur bréf þann 20. janúar síðastliðinn, í gegnum lögmenn sína í Bretlandi og í Bandaríkjunum, til stjórnarmanna Alvogen Lux Holdings, Alvotech, Lotus Pharmaceuticals og Róberts, en í bréfinu til Róberts hafi þess verið krafist að hann byði Halldóri fjárhagsbætur vegna framkomu í hans garð. Tilboð þess efnis ætti að berast innan tveggja vikna. Í stefnunni er nefnt að lögmannsstofan Quinn Emanuel hafi verið fengin í verkið, en hún er sögð státa sig af því að því að vera sú lögmannsstofa sem „alþjóðleg stórfyrirtæki óttast mest“. Að sögn Alvogen sé því augljóst að tilgangur Halldórs með því að leita til hennar hafi „verið að komast í samningsstöðu til að knýja fram fjárhagsbætur“, segir í stefnunni.

Þá er greint frá því að Halldór hafi mætt í tvö viðtöl við White & Case í febrúar vegna athugunar stofunnar en hafi hins vegar neitað að mæta í þriðja skiptið. Í þeim viðtölum hafi hann gengist við því að fáum vikum eftir að hann sendi bréfin um ásakanirnar á hendur Róberti hefði hann látið fjölmiðlum í té afrit af þeim, en hreinsað áður úr þeim tilteknar upplýsingar. Eiga þau bréf meðal annars að hafa verið send á Bloomberg, fréttaskýringarþáttinn Kveik á RÚV og Financial Times.

Í stefnu Alvogen er því haldið fram að með þessu hafi Halldór viðurkennt í raun að hafa brotið trúnaðar- og þagnarskyldu gagnvart félaginu, þar sem því hafi ekki gefist kostur á að rannsaka ásakanir hans. „Með þessu fyrirgerði [Halldór] rétti sínum til þess að njóta sérstakrar verndar sem uppljóstrari í skilningi laga nr. 40/2020,“ en Halldór hefur lýst því yfir að hann hafi stigið fram sem uppljóstrari.

Telur Alvogen brýnt að fá úrlausn um lögmæti riftunar á ráðningarsambandi hans við félagið í ljósi fullyrðinga Halldórs um að hann njóti sérstakrar verndar sem uppljóstrari í skilningi laganna. Í stefnu félagsins segir að trúnaðarbrot Halldórs geti ekki talist uppljóstrun í skilningi fyrrgreindra laga og byggir á því að hann hafi „beint ásökunum sínum í tiltekinn farveg með fulltingi erlendra lögmannsstofa til þess að njóta sérstakrar verndar sem uppljóstrari og til að knýja [Alvogen] að samningaborði til greiðslu fjármuna.“ Því hafnar Alvogen sem ótæku.

Á undanförnum mánuðum hefur líftæknifyrirtækið Alvotech, systurfélag Alvotech, sótt sér samtals um 100 milljónir dala, að hluta frá íslenskum fjárfestum, í nýtt hlutafé. Með þeirri fjármögnun er félagið, sem er verðmetið á 2,4 milljarða dala, búið að tryggja rekstur sinn fram yfir áformað hlutafjárútboð og skráningu erlendis í haust, að líkindum í bandarísku kauphöllina Nasdaq.