Nýverið var gengið frá kaupum Reykjanesklasans ehf. á byggingum Norðuráls í Helguvík. Reykjanesklasinn fyrirhugar að koma þar upp „Grænum iðngarði“ sem hýst getur innlend og erlend fyrirtæki sem þurfa rými fyrir sprotastarf, rannsóknar- og tilraunastarfsemi, þróun, framleiðslu og samsetningu á vörum eða aðstöðu fyrir fiskeldi og ræktun.
Húsnæðið sem er um 25 þúsund fermetrar að grunnfleti hefur staðið autt um árabil. Áætlað er að húsnæðið verði um 35 þúsund fermetrar þegar umbreytingu þess er lokið. Garðurinn er staðsettur í nokkurra mínútna fjarlægð frá höfninni í Helguvík og verður enska heiti Græna iðngarðsins Iceland Eco-Business Park.

Markmið garðanna er að styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækjanna í hringrásarhagkerfinu. Þau fyrirtæki sem hafa áhuga á að koma á fót starfsemi í græna iðngarðinum leitast við að haga starfsemi sinni á þann hátt að minnka úrgang eins og kostur er. Hvers konar úrgangur frá starfsemi fyrirtækjanna er endurnýttur eða nýttur sem auðlind fyrir önnur fyrirtæki í garðinum. Í samstarfi fyrirtækjanna er einnig lagt kapp á að búa starfsfólki aðlaðandi og spennandi umhverfi.
Kjartan Eiríksson, einn af stofnendum garðanna segir að með grænum iðngarði skapast tækifæri fyrir fjölda fyrirtækja að nýta sér einstaka aðstöðu og auðlindir Reykjaness.
„Staðsetning garðsins við alþjóðaflugvöll og höfn skapar líka mikil tækifæri. Við vonum að þessi nýja starfsemi geti einnig eflt enn frekar allt samfélagið í kringum Græna iðngarðinn, aukið fjölbreytni starfa og tækifæra fyrir fólk með ólíka menntun, bakgrunn og þekkingu,“ segir Kjartan.
Innan Græna iðngarðsins verður starfræktur hópur sem samanstendur af fulltrúum fyrirtækja í garðinum. Markmið hópsins er að skapa aukin verðmæti með samstarfi fyrirtækjanna tengt nýsköpun og hringrásarmálum.

„Hús Sjávarklasans sem er um 3000 fermetrar að stærð, hefur í röskan áratug boðið frumkvöðlum skrifstofuaðstöðu. Með þessari rösklega tíföldun á aðstöðu opnast tækifæri fyrir frumkvöðla til að fara í mun stærra húsnæði fyrir margháttaða starfsemi og hvers konar framleiðslu,“ segir Þór Sigfússon, annar stofnandi garðsins.