Nýr samningur Landsvirkjunar og Rio Tinto, þar sem samningsbundið raforkuverð til álversins tekur að hluta mið af álverði, gæti verið fyrirmynd raforkusamninga milli Landsvirkjunar og álframleiðenda til frambúðar. Þetta segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Fjárhagsleg staða Landsvirkjunar í dag, samanborið við fyrir áratug síðan, sé töluvert sterkari. Þar af leiðandi geti fyrirtækið leyft sér að taka meiri áhættu í raforkusamningum með frekari stöðutöku á hrávörumörkuðum.

Greint var frá því í byrjun vikunnar að Landsvirkjun og Rio Tinto hefðu náð samkomulagi um breytingar á orkukaupasamningi milli fyrirtækjanna sem er í gildi til ársins 2036. Um er að ræða viðauka við upphaflega samninginn sem var undirritaður á árinu 2010. Líkt og áður sagði er álverðstenging aftur tekin inn í samninginn, auk þess sem grunni samningsins sem byggir á neysluverðsvísitölu í Bandaríkjunum, er breytt. Ekki var tekið fram í fréttatilkynningu vegna málsins hversu veigamikil álverðstengingin er, en ætla má að hún sé innan við fjórðungur af heildarsamningsverði.

Mjög tvísýnt var um framtíð álversins við Straumsvík um skeið, einkum og sér í lagi þegar heimsmarkaðsverð á áli náði miklum lægðum á síðasta ári. Um mitt síðasta ár kom fram í árshlutauppgjöri Rio Tinto að álverið í Straumsvík hefði verið afskrifað að fullu úr bókum félagsins. Nam afskriftin um 269 milljónum dala, eða sem svarar til um 35 milljarða króna.

Í skýringum með uppgjörinu sem um ræðir kom meðal annars fram að Rio Tinto hefði gert tilraun til að „eiga í uppbyggilegum viðræðum við Landsvirkjun, en hafi nú komist að þeirri niðurstöðu að Landsvirkjun sé ekki reiðubúin að lækka raforkuverð [til ÍSAL] sem einhverju nemur.“ Í komandi uppgjöri Rio Tinto verður því forvitnilegt að sjá hvernig álverið við Straumsvík verður fært til bókar.


Óbreyttar tekjur um sinn


„Tekjur Landsvirkjunar af samningnum verða svo að segja óbreyttar á næstu árum eftir þennan viðauka, miðað við hvernig framvirkt verð á áli er um þessar mundir. Sveiflur í tekjum í samningnum gætu þó orðið meiri,“ segir Hörður Arnarson, sem bætir því við að hann hafi alltaf talið forsendur fyrir hendi til að ná samningum við Rio Tinto. Stundarverð á áli um þessar mundir er tæplega 2.080 dalir á tonnið. Eftir að heimsfaraldurinn hóf innreið sína snemma á síðasta ári seig verðið í nærri 1.400 dali fyrir tonnið á tímabili. Stundarverð á áli hefur því hækkað um tæp 50 prósent á einu ári. Framvirkt verð á áli til afhendingar í desember 2022 var 2.142 dalir fyrir tonnið í gær.

Þegar álverð tekur skarpa dýfu getur verið skynsamlegt að hafa einhvers konar sveiflujafnara í raforkusamningum.

Hörður segir að tekjur Landsvirkjunar vegna samningsins séu áætlaðar á þriðja hundrað milljarða króna frá undirritun viðaukans og fram til loka samningsins árið 2036. Ásamt því að taka álverðstengingu aftur inn í samninginn, eykst kaupskylda Rio Tinto, sem tryggir tekjur Landsvirkjunar frekar, segir forstjórinn. Áður hafi kaupskylda Rio Tinto verið um 85 prósent. Það hlutfall hækkar nú, en umfang kaupskyldunnar er trúnaðarmál milli fyrirtækjanna tveggja.

Að sögn Harðar er Landsvirkjun nú betur búin til þess að taka áhættu með viðskiptavinum sínum samanborið við fyrir áratug tíðan. „Þegar ég tek við fyrir 10 árum voru skuldahlutföll Landsvirkjunar með þeim hætti að nauðsynlegt var að draga úr álverðsáhættu á bókum fyrirtækisins. Skuldir í hlutfalli við hagnað fyrir afskriftir og fjármagnsliði hafa helmingast á þessum tíma. Því er meira svigrúm fyrir stöðutöku sem þessa nú,“ segir hann.

Á síðasta ári hafi Landsvirkjun þannig gefið stórnotendum, þar á meðal álverum, allt að 25 prósenta afslátt af raforkuverði þegar álverð hrundi á heimsmarkaði. „Þegar álverð tekur skarpa dýfu getur verið skynsamlegt að hafa einhvers konar sveiflujafnara í raforkusamningum. Landsvirkjun mun svo líka njóta þess þegar álverð hækkar,“ segir hann.


Falla frá kvörtun


Samhliða undirritun viðauka raforkusamningsins hefur Rio Tinto ákveðið að draga til baka kvörtun sína til Samkeppniseftirlitsins. Kvörtunin var formlega lögð fram í júlí á síðasta ári. Grundvöllur kvörtunarinnar var að mismunandi verð í raforkusamningum Landsvirkjunar fæli í sér mismunun gagnvart viðskiptavinum. Landsvirkjun væri því að misnota markaðsráðandi stöðu sína.

Að sögn Harðar var það ekki forsenda nýja samningsins að Rio Tinto drægi til baka kvörtunina. Í samningaviðræðunum hafi ýmis önnur útistandandi mál milli fyrirtækjanna verið rædd og það hafi verið niðurstaða Rio Tinto að draga kvörtunina til baka.