Álver Rio Tinto í Straumsvík greiðir um þessar mundir hærra orkuverð til Landsvirkjunar en það hefði ella gert fyrir nýlega undirritun annars viðauka raforkusamningsins við Landsvirkjun, en þetta herma heimildir Markaðarins. Ástæðan er hækkandi álverð að undanförnu, en viðaukinn við raforkusamninginn fól í sér álverðs­tengingu að hluta við raforkuverðið sem álverið greiðir.

Viðaukinn felur í sér að um 21 prósent af álverði umfram 1.800 dali fyrir tonnið leggst ofan á grunnverðið, sem stendur núna í 30 dollurum á megavattstundina og er tengt neysluverðsvísitölu í Bandaríkjunum. Álverð er sem stendur í 2.445 dölum fyrir tonnið, samkvæmt gögnum frá London Metal Exchange. Það þýðir að 21 prósent reiknast af mismuninum á 2.445 og 1.800 dölum, eða af 665 dölum. Í það er svo deilt með 14,2, en það er sá fjöldi megavattstunda sem þarf til að framleiða eitt tonn af áli.

Sú tala leggst svo ofan á 30 dali, sem þýðir að álverið í Straumsvík er um þessar mundir að borga um 40 dali fyrir megavattstundina, sem er örlítið hærra en samningurinn kvað á um fyrir undirritun viðaukans í febrúar síðastliðnum.

Í krónum og aurum þýðir þetta að Landsvirkjun fær, miðað við núverandi álverð, um einum dal meira fyrir megavattstundina. Sé gert ráð fyrir fullum afköstum í Straumsvík þýðir það um 3,4 milljónir dala aukalega í tekjur fyrir Landsvirkjun, eða 420 milljónir króna.

Upphaflega var raforkusamningurinn milli Rio Tinto og Landsvirkjunar undirritaður árið 2010 og hefur gildistíma til 2036.

Rio Tinto vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.

Skynsamlegt að tengja álverði

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að fyrirtækið sé bundið af trúnaði um ákvæði og viðskiptakjör í einstökum samningum. Hann nefnir að samningar með föstu verði séu fyrsta val Landsvirkjunar þegar kemur að samningum við stórnotendur raforku. Ástæða þess er einkum að draga úr ófyrirséðum sveiflum í rekstri.

„Okkur hefur lánast að greiða hratt niður skuldir á umliðnum árum og fyrirtækið stendur mun sterkar fjárhagslega nú. Þannig teljum við vel ásættanlegt og í raun skynsamlegt að bjóða viðskiptavinum tengingu við afurðaverð að litlum hluta. Landsvirkjun hefur lagt áherslu á að styðja við viðskiptavinina þegar á móti blæs, enda hagsmunir okkar samofnir,” segir Hörður.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að samningar með föstu verði séu fyrsta val fyrirtækisins.

Vilja að þrengt sé að kínverskum framleiðendum


Samtök álframleiðenda í Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada og Japan sendu nýverið frá sér sameinginlega tilkynningu þar sem leiðtogar G7 landanna eru hvattir til þess að grípa til aðgerða vegna ódrengilegra viðskiptahátta á álmarkaði þar sem ríkisstyrktir framleiðendur eru sagðir njóta forskots. Í tilkynningunni er vísað til þess að kínverskir álframleiðendur njóti ríkisstyrkja sem nema á milli 4 og 7 prósent af árlegri veltu, á meðan meðaltal annarra framleiðenda í þessum efnum sé 0,2 prósent. Afleiðingin hafi verið sú að nánast öll framleiðsluaukning áls á síðustu árum hafi átt sér stað í Kína.

„Umfang ríkisstyrkjanna hefur leitt framleiðsluaukningu sem er umfram eftirspurn. Verð hafa þess vegna lækkað og ógna rekstrarhæfi framleiðenda sem ekki njóta ríkisstyrkja. Skilvirk og orkunýtin framleiðsla, auk endurvinnslu, í Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada og Japan geta haft meiriháttar áhrif til þess að tryggja góð störf, tryggja framboð mikilvægra hrávara og stuðla að hagkerfi sem þarfnast ekki mikillar notkunar kolefnis – þó aðeins ef alþjóðamarkaðir eru opnir, frjálsir og sanngjarnir.

Rússnesk fyrirtæki selja mikið af hrávörum til Evrópu hverra framleiðsla kallar á mikla losun gróðurhúsalofttegunda, svo sem ál.
Ljósmynd/Hreinn Magnússon

Kolefnislandamærin verst fyrir Rússland


Fyrir liggur að Evrópusambandið mun á næstu einu til tveimur árum innleiða svokölluð kolefnislandamæri (e. carbon border adjustment mechanism). Í þeim felst að hrávörur sem framleiddar eru utan aðildarríkja sambandsins fyrir atbeina mengandi raforku muni bera háa tolla. Tilgangurinn er sá að koma í veg fyrir að sífellt strangari reglur um losun gróðurhúsalofttegunda grafi ekki undan samkeppnishæfni evrópsks frumiðnaðar. Líklegt er að þetta muni almennt styðja við evrópskan áliðnað, enda útiloka kolefnislandamærin í reynd innflutning frá allmörgum stórum framleiðendum.

Talið er að þetta muni koma illa við kínverska og rússneska álframleiðendur. Eins og sakir standa á álmarkaði um þessar mundir myndu kolefnislandamærin koma verst við Rússa, enda er útflutningur frá Kína að dragast mikið saman, bæði vegna kröftugrar innlendrar eftirspurnar en líka sökum minni framleiðslu í Kína.

Rússnesk fyrirtæki selja mikið af hrávörum til Evrópu hverra framleiðsla kallar á mikla losun gróðurhúsalofttegunda, svo sem ál, áburð, stál, sement og rafmagn. Auk þess selja Rússar töluvert af jarðgasi til Evrópu í gegnum Nord Stream-sæstrenginn. Sæstrengurinn liggur frá Vyborg í Rússlandi, eftir botni Eystrasaltsins og kemur á land í Greifswald í Þýskalandi.

Vöruviðskipti Rússlands og Evrópusambandsins hafa þó minnkað mikið á undanliðnum árum og hafa nærri helmingast á síðustu 10 árum. Rússar halda því fram að kolefnislandamærin séu verndarstefna af verstu sort. Evrópa segir á móti að Rússar séu ekki nægilega metnaðarfullir í markmiðasetningu vegna loftslagsmála, en landið hefur sett sér það markmið að draga úr losun þannig að hún jafngildi um 70 prósentum af losun ársins 1990.

Efnahagslíf Rússlands var hins vegar í slíkum molum árið 1990 að það markmið býður upp á aukningu í losun frá því sem nú er.