Heimsmarkaðsverð á áli rýkur upp um þessar mundir, en það náði 2223 dollurum á tonnið í viðskiptum dagsins og hækkaði um tæp fjögur prósent frá því í gær. Það sem af er ári hefur álverð hækkað um meira en 12 prósent. Frá því að álverð náði sínum lægstu lægðum í langan tíma í upphafi Covid-kreppunnar í apríl á síðasta ári hefur verðið hækkað um 56 prósent.

Stóraukin eftirspurn í flestum heimshlutum er megindrifkraftur hækkunarinnar, en iðnaður er víðast hvar að ná sér á strik á ný eftir þyngsta skafl kreppu síðasta árs.

Álverðshækkunin er líka hluti af stærri þróun á verði hrávara. Nánast allar hrávörur hafa hækkað hressilega í verði það sem af ári, að þvi er Financial Times greinir frá. Hrávöruvísitala S&P hefur þannig hækkað um 17 prósent frá áramótum.

Kopar kostar nú 9000 þúsund dollara á tonnið, en verðið hefur ekki verið hærra frá árinu 2011. Maís kostar nú 5,54 dollara fyrir knippið, sem er hæsta verð síðastliðinna átta ára.

Mikið innflæði fjár frá fjárfestum er talið vera að baki hluta verðhækkana, en talið er að mikil peningaprentun helstu seðlabanka heims muni nú koma fram í hækkandi verðum á hrávörum.

Er þannig litið svo á að rísandi heimshagkerfi í kjölfar Covid-kreppunar muni auka á eftirspurn hrávara, en allir þeir fjármunir sem seðlabankar hafa dælt út á síðastliðnum árum muni nú leita inn í raunhagkerfið í töluverðum mæli. Eitt dæma um það er að framvirkar stöður í landbúnaðarvörum á borð við maís, hveiti og sojabanum hafa nánast aldrei verið stærri.