Alþjóðlega fjárfestingafélagið Partners Group hefur samið um kaup á gagnaverinu atNorth. Partners Group er skráð félag og eitt það stærsta sinnar tegundar í Evrópu. Kaupin falla vel að stefnu atNorth um aukin umsvif á Norðurlöndum á komandi árum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

atNorth rekur þrjú gagnaver á Íslandi og Svíþjóð og þjónar ýmsum fyrirtækjum víðs vegar að úr heiminum, frá litlum fyrirtækjum til alþjóðlegra stórfyrirtækja og stofnana í fjölmörgum greinum, t.d. í heilbrigðisgeiranum, í rannsóknum og vísindum, framleiðslu, fjármálaiðnaði og veðurfræði.

Starfsmenn atNorth eru alls um 40 talsins, en að auki koma um 40 verktakar beint að daglegri þjónustu í kringum rekstur fyrirtækisins og enn fleiri óbeint.

Viðskiptin skapa mikil vaxtartækifæri fyrir atNorth, sem hefur einsett sér að vera leiðandi fyrirtæki á sínu sviði. Stjórnendateymi atNorth verður áfram við stjórnvölinn og mun stýra sókn félagsins inn á nýja markaði, segir í tilkynningunni.

„Við höfum þegar náð góðri fótfestu með uppbyggingu sjálfbærra og hagkvæmra gagna- og reiknivera á Íslandi og Svíþjóð. Nú er hins vegar tímabært að taka stærri skref og sækja hraðar fram á ört vaxandi markaði. Við hlökkum til þessa nýja kafla í vegferð atNorth með Partners Group, sem hefur mikla þekkingu á stafrænum innviðum, verðmæta rekstrarreynslu og mikla fjárfestingargetu,“ segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth.