Almenningi verður gert kleift að kaupa hlutabréf í Íslandsbanka fyrir 50 þúsund krónur í hlutafjárútboði bankans sem hefst í næstu viku. Lágmarksfjárhæðin sem almennir fjárfestar munu geta skráð sig fyrir er nokkuð lægri en hefur jafnan tíðkast í almennum útboðum félaga sem hafa verið skráð í Kauphöllina.

Samkvæmt heimildum Markaðarins er áformað að í svonefndri tilboðsbók A, sem er ætluð almennum fjárfestum, verði tekið við tilboðum frá 50 þúsund krónum upp í allt að 75 milljónir. Hámarksfjárhæðin er sömuleiðis talsvert hærri en hefur verið reyndin í slíkum útboðum og ætti fyrirkomulagið að þýða að almennum fjárfestum verði úthlutað stærri hlut en ella í samanburði við það sem fellur í skaut fagfjárfesta.

Í hlutafjárútboði Síldarvinnslunnar, sem lauk um miðjan síðasta mánuð, gátu almennir fjárfestar skráð sig fyrir hlutum að fjárhæð á bilinu 100 þúsund upp í 20 milljónir. Sama fyrirkomulag var við útboð Icelandair síðasta haust, þar sem hluthöfum fjölgaði úr 4 þúsund í rúmlega 11 þúsund, en þar var ákveðið á lokametrunum að lækka þá fjárhæð sem almenningur gæti keypt fyrir úr 250 þúsund í 100 þúsund.

Ekki liggur enn fyrir á hvaða verðbili hlutir í Íslandsbanka verða seldir í útboðinu en ríkið, eigandi alls hlutafjár í bankanum, áformar að selja á bilinu 23 til 35 prósenta hlut.

Áætlað er að skráningarlýsing og fjárfestakynning verði birt næsta mánudag. Í kjölfarið hefjist öflun áskrifta frá fjárfestum og að útboðið standi yfir til 16. júní. Þá er ráðgert, samkvæmt heimildum Markaðarins, að fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf Íslandsbanka í Kauphöllinni verði þriðjudaginn 22. júní.

Í þessari viku standa yfir fundir söluráðgjafa með fjárfestum, en viðbrögð þeirra á fundunum verða á meðal þess sem litið verður til þegar Bankasýsla ríkisins ákvarðar verðbil og stærð útboðsins. Afar sennilegt er talið að gengið verði á bilinu um 0,8 til tæplega 0,9 miðað við eigið fé bankans, sem þýðir að markaðsvirði hans sé um 148 til 167 milljarðar.