Íslenska ríkið ætlar að vera búið að selja allt hlutafé sitt í Íslandsbanka tveimur til þremur árum eftir að 25 til 35 prósenta hlutur verður seldur um mitt þetta ár í gegnum opið hlutafjárútboð og skráningu í Kauphöllina.

Þetta kom fram í kynningu sem fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabankans héldu fyrir erlenda fjárfesta á miðvikudaginn í síðustu viku, og Markaðurinn hefur undir höndum, þegar ríkið gaf út skuldabréf til sjö ára fyrir 750 milljónir evra. Gangi þau áform eftir gæti ríkið, sem fer með 100 prósenta hlut í Íslandsbanka, mögulega verið búið að losa um allt eignarhald sitt á bankanum á árinu 2023 en bókfært eigið fé hans nam um 183 milljörðum í lok september.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tilkynnti Bankasýslunni, sem heldur utan um eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, síðastliðinn föstudag um ákvörðun sína að hefja formlega sölumeðferð á Íslandsbanka en stefnt er að því að selja 25 til 35 prósenta hlut í bankanum.

Bankasýslan auglýsti í gær eftir ráðgjöfum við söluferlið en stofnunin áformar að ráða einn sjálfstæðan fjármálaráðgjafa og einn eða fleiri söluráðgjafa.

Fram kom í máli Bjarna á opnum hádegisnetfundi efnahags- og viðskiptanefndar Sjálfstæðisflokksins á mánudag að þrátt fyrir að hærra verð kunni að fást fyrir hlut í Íslandsbanka með sölu til kjölfestufjárfestis séu einnig önnur atriði, eins og dreift eignarhald, sem skipti meira máli svo salan sé vel heppnuð. Vonast hann eftir því að sjá mikla þátttöku í væntanlegu útboði frá almenningi.