Vigfús hóf störf hjá Málningarverksmiðjunni Hörpu árið 1982, 25 ára gamall. Hann gerir lítið úr löngum starfsferli sínum hjá fyrirtækinu og nefnir að þegar hann hóf störf fyrir 40 árum starfaði þar maður sem byrjaði hjá fyrirtækinu þegar það var stofnað, 1936. Þá var hann aðeins 16 ára. Hann lét ekki af störfum fyrr en um sjötugt, árið 1990, og starfaði því samfellt í 54 ár hjá fyrirtækinu.

Aðspurður segir hann starfsmannaveltu tiltölulega litla hjá fyrirtækinu, en þar starfa nú um 30 manns.

Þegar Vigfús höf störf hjá Hörpu fyrir 40 árum var fyrirtækið staðsett á Skúlagötu, við hringtorgið sem þar var, skáhallt á móti lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Þar hafði fyrirtækið verið frá upphafi.

Gríðarleg breyting varð á allri starfsemi þess í lok árs 1988, þegar fyrirtækið flutti starfsemi sína upp í Stórhöfða við Grafarvog.

„Þetta voru mikil tímamót hjá fyrirtækinu,“ segir Vigfús. „Ég segi stundum að maður hafi gengið í gegnum endurfæðingar með fyrirtækinu. Þetta var fyrsta stóra breytingin sem ég gekk í gegnum með fyrirtækinu, þegar við fluttum hingað upp eftir. Hér var allt nýtt. Ný tæki og ný hugsun.“

Undir aldamótin varð mikil breyting í starfsemi fyrirtækisins þegar það opnaði sínar eigin verslanir. Fram að því hafði það verið málningarverksmiðja og heildverslun sem seldi til mikils fjölda málningarverslana áður en stóru keðjurnar urðu ráðandi. „Þarna ruddist Harpa fram á vollinn með sínar eigin verslanir og ég var allt í einu orðinn kaupmaður. Þetta var önnur endurfæðing.“

Vigfús segist hafa verið lánsamur í starfi sínu hjá fyrirtækinu. Málningarverksmiðjan Harpa var frá upphafi fjölskyldufyrirtæki og rekið af sömu fjölskyldunni í næstum 70 ár. „Eigendur fyrirtækisins hafa alla tíð verið alveg einstakir og aldrei fallið skuggi á sambandið og samstarfið við þá. Eftir að fjölskyldan seldi Flügger fyrirtækinu danska hlut sinn hélt gott samband við eigendur áfram,“ segir Vigfús.

Harpa-Sjöfn, eins fyrirtækið hét þá, var selt til Flügger í lok árs 2004. Þá hafði verið samstarf milli fyrirtækjanna í að minnsta kosti áratug. „Það má segja að þarna hafi orðið enn ein endurfæðingin hjá mér með fyrirtækinu. Ég varð síðan framkvæmdastjóri 2008 en dró mig aðeins til hliðar fyrir ári til að hleypa yngra fólki að þannig að núna er ég viðskiptastjóri og mitt starf felst í samskiptum við þýðingamikla viðskiptavini fyrirtækisins og svipast um eftir nýjum tækifærum. Ég er alsæll í mínu starfi,“ segir Vigfús G Gíslason sem heldur upp á 40 ára starfsafmæli í fyrirtæki þar sem hann er endurfæddur í starfi enn og aftur.