Öll framleiðsla þessa árs er uppseld hjá íslenska sporthýsaframleiðandanum Mink Campers, að sögn Arnar Ingva Jónssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn hafi haft ýmis vandræði í för með sér fyrir Mink Campers, eins og f lest önnur framleiðslufyrirtæki, urðu forsvarsmenn fyrirtækisins varir við mikla aukningu í fyrirspurnum og pöntunum, segir Örn.

Fyrirhugað er að framleiða 60 sporthýsi á þessu ári hjá Mink Campers að sögn Arnar. Um þessar mundir stendur fjármögnunarferli fyrirtækisins yfir á hópfjármögnunarsíðunni Funderbeam. Að fjármögnunarferli loknu er áætlað að f lytja framleiðslu fyrirtækisins til Lettlands, þar sem afkastagetan er áætluð 450–500 sporthýsi á næsta ári og allt að 1.500 eintök á ári frá árinu 2022.

Mink Campers leitar sér nú fjármögnunar fyrir að minnsta kosti 500 þúsund evrur, en yfir 92 prósent af þeirri fjármögnun hefur þegar verið tryggð. Fyrir þá fjárhæð er 13% hlutur í fyrirtækinu til sölu, sem þýðir að verðmæti þess er metið á um 3,3 milljónir evra sem stendur, eða sem nemur um 528 milljónir króna.

„Kórónuveirufaraldurinn reyndist okkur erfiður, erlendir birgjar lokuðu margir hverjir og við gátum hreinlega ekki fengið íhluti. Við þorðum ekki öðru en að hefja framleiðsluna hér heima núna í haust en hún mun færast alfarið til Lettlands í september og október,“ segir Örn, sem bætir við að fyrirtækið hafi þegar tryggt sér starfsstöð og ráðið lykilstarfsfólk þar eystra.

Fjölmargir landsmenn hafa nýtt sumarfríið til að ferðast innanlands þetta sumarið. Örn segir að Mink Campers hafi ekki farið varhluta af þeirri þróun, enda hafi eftirspurn ferðahýsa af ýmsu tagi aukist mikið í kjölfarið: „Fólk virðist kjósa að ferðast meira á eigin vegum þessi misserin. Við teljum að COVIDfaraldurinn muni styrkja okkar rekstur til lengri tíma þó auðvitað hafi þetta verið mjög óheppilegt til skemmri tíma.“

Aukinnar eftirspurnar hefur orðið vart víðar í sama geira. Kristín Anný Jónsdóttir, sölustjóri Víkurverks, sem selur tjald- og ferðahýsi, tekur í sama streng og Örn. „Það selst allt jafnóðum um leið og það kemur inn,“ segir hún. Kristín telur að söluaukning á ferðahýsum fyrirtækisins sé um 40% frá síðasta ár